þriðjudagur, 11. mars 2008

Flutt!

Ehhh já ég er flutt í bloggheimum...

...þessar hænur eru bara alltaf að vekja mig svo snemma á morgnana með gaggi!

jennzla.blog.is

Mér er ekki viðbjargandi!

mánudagur, 10. mars 2008

Góðan daginn

Ég er enn netlaus á nýja staðnum, en finnst það merkilega ágætt!

Er heima á Laugum að hafa að næs. Þetta er reyndar mjög stutt stopp en mig var bara farið að langa svo mikið að sjá fjölskylduna mína.

Spenningurinn fyrir fimmtudeginum farin að magnast upp...varla neitt annað sem kemst að hjá mér núna. Næstu dagar fara nær eingöngu í undirbúning og að gera þetta fyrir mann og annan. Ég hef ekki fundið fyrir svona miklum spenning og stressi lengi! Gaman gaman!

Búningarnir fyrir 39 og 1/2 viku komnir vel á veg og ég er líka að fá liðsauka í búningaöflunina. Reyndar nokkurra daga pása í þeim núna þar sem ég er að einbeita mér að öðru.

Líka endalaust gaman í Óperustúdíóinu! Partýjuðumst aðeins á laugardeginum og ég sigraði ávaxtaleikinn! Held að allir hafi skemmt sér mjög vel það kveld.

Fleira er ekki í fréttum.

mánudagur, 3. mars 2008

Helstið

Þá er maður orðin netlaus!

Er flutt í Hagana og líður vel þar eftir eina nótt :o) Fæ svo rúmið MITT í vikunni og þá fer allt að koma heim og saman. Komst að því að ég á viðbjóðslega hrottalega mikið af fötum, en bara það sem hékk uppi í skápnum tók 3 svarta plastpoka!

Fékk bréf í dag um hvenær ég megi mæta í inntökupróf og það er bara á fimmtudaginn í næstu viku! Var voða fegin þegar ég sá að ég ætti að mæta 14:30, en vinkona mín þarf að mæta kl. 8:15 og það hefði verið svakalegt! Er ekki alveg þessi morgunmanneskja en ég er strax byrjuð að vinna í því að breyta því...er t.d. núna í viku eða eitthvað búin að vakna um 10-leytið :o) Hef fulla trú á mér auk þess sem ég er að pæla í að reyna að fá vinnu í sumar þar sem þarf að mæta 8.00...ég held ég geti þetta alveg!

Annars er fátt að frétta...nema ég skipti um Sjeikspír...enn og aftur...en þetta er sá sem ég vildi upphaflega hafa en var of langur...en frétti síðan að maður mætti stytta þannig ég gerði það bara :o)

Svo var helgin biluð! Vann í 17 tíma á föstudeginum til 4 um nóttina og var svo mætt í óperustúdóið á laugardag kl. 10:00 og þaðan í búningapresentation hjá Hugleik og svo að æfa mig aðeins fyrir framan fólk fyrir inntökuprófið og svo vinna í Óperunni og svo aftur á Næsta til kl. 6:00 um morguninn...glaðvaknaði svo, einhverra hluta vegna, kl. 11:00 á sunnudagsmorguninn og gat ekki með nokkru móti sofnað aftur. Pakkaði öllum mínum föggum og flutti.

Og svo svaf ég yfir mig í morgun, en við Helgi vorum búin að stefna okkur saman að vinna smá í morgun. Hefði getað sofið endalaust en var í staðin mjög pródöktív og við unnum vel.

Allt að smella saman á öllum vígstöðvum!

miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Fréttaskítur

Frekar mikið að gera þessa dagana og svo er tölvan búin að gefast upp sem er algerlega fullkomið því þá er netið ekki að trufla mig eins mikið. Kemst yfir alveg hreint endalaust mikið meira en þegar ég átti tölvu.

Er líklegast búin að fá aðra vinnu sem ég er ótrúlega sátt við. Fæ það alveg á hreint á morgun!

Þá er bara að finna sér sumarvinnu!

Búningar ganga vel
Undirbúningur gengur vel
Óperustúdíóið gengur
Skólinn jájá
Næsti fínn

Allt í svona þokkalegu orden!

Er samt farin að sjá apríl í hyllingum!

sunnudagur, 24. febrúar 2008

Interval

Jáhh ég náði að gleyma að blogga á bloggafmælinu sjálfu! Mjög vel spilað!

Er viðbjóðslega þreytt enda eeeeeeeeeeeeeendalaust margt búið að vera að gerast síðan síðast, eins og:

Setti búningaplan upp
Fann mér nýjan Spíra-mónólóg
Sá mann misþyrma húðflettum kindaskrokki allsvakalega!
Hamaðist á 6 tíma leiklistarnámskeiði
Hannaði atriði
Varð næstum því vitni að fundi eilífrar hamingju
Svaf lítið
Myrða enn eina tölvuna
Eignast stjúpsysturson
Sjá 31 pissuprufuglas með innihaldi
Vita meira um inntökuprófið
Gubba
Fara á kaffirí
Fara í hlutverk reykingarlögreglu
Finna mér leiðbeinendur

Þetta finnst mér bara nokkuð vel af sé vikið á nokkrum dögum. Er voða stolt af því hvað ég er dugleg og löt.

And the show must go on...

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Reality check!

Ekki svo mikið andvaka lengur....sef bara og sef!! Er ekki viss um að það sé eitthvað skárra!

Stressið er alveg að fara með mig...er búin að hringsnúast í hausnum á mér í sólarhring núna...ætla samt að reyna að setjast niður núna og skipuleggja mig alminnilega! Er búin að leyfa mér að vera bara hálfskipulögð í vetur, því ég þurfti nauðsynlega að læra að slappa af, en núna dugar það ekki lengur!

Þetta er allt að verða svo raunverulegt núna, með inntökuprófin. Hef komist að því að Shakespeare sökkar og hefur í raun litað 99% af leikritun heimsins...sem ætti samt að þýða að 99% ef leikritum heimsins sökki...en þau gera það náttúrulega ekki...og ekki heldur verkin hans Sjeika...bara hlutur kvenna...

Er að fara að hitta eina stelpu á sunnudaginn og sýna henni hvað ég er komin með og spyrja hana allra heimskulegra spurninganna sem mig vantar svör við...stresshress! Er að pæla í að kannski gera það fyrir framan einhvern sem ég þekki þá á morgun eða eitthvað...! Og ef einhver vill sjá má hann alveg láta mig bara vita ;o)

Og svo er það spurningin um atriði eða gjörning...er komin með eina hugmynd en vantar þá hjálp frá einni manneskju sem er bara mest bissí manneskja sem ég þekki þannig ég er ekkert svakalega bjartsýn á það, en það væri bara gebbað!

Ætla að tékka á sýningum hjá F&F á laugardaginn til að fá kannski smá inspírasjón...

Svo er Fanney systir farin norður í hálft ár allavega...það er pínu leiðinlegt en ég öfunda hana líka smá...merkilegt hvað það er erfitt að slíta sig frá fjölskyldunni sinni...!

Vá ég er vælukjói í dag!

Lofa að vera það ekki á morgun...og ég lofa líka bloggi á morgun (eða í nótt) því þá er eitt ár síðan ég flutti inn á þetta bloggheimili!

miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Munnræpa í tilefni andvöku minnar

Baaaa....andvaka...!

Reyni að sofna og er víðáttuþreytt en um leið og ég loka augunum hlaðast upp hugsanir á ógnarhraða og ég næ bara ekki að vinna úr þeim öllum og þá fylla þar hraðar og hraðar upp í plássið þangað til að allt springur!

Nei, það er nú kannski ekki svo drastískt en engu að síður erfitt...er líka komin aftur með svakalega vöðvabólgu í axlirnar...

...og ég er búin að hugsa til enda hvað gæti orsakað þetta allt saman og hef komist að niðurstöðu:

Þetta er út af því ég er með ónýtan kodda. Hann er einfaldlega orðin ofnotaður. Byrjaði að nota hann aftur fyrir nokkrum nóttum því ég var orðin leið á að sofa alltaf á púða, en viti menn púðinn er bara betri!

Stefni á að finna mér alvöru rúm (ekki sófa dulbúin sem rúm) alminnilegan kodda og nýja sæng!

Stefni líka á að finna vinnu sem getur verið sveigjanleg án þess að yfirmenn og samstarfsfólk verði fúlt. Er samt ekki að fara að hætta á Næsta...vantar bara smá meiri vinnu svona fyrst maður er að fara að leigja og búa sjálfur og svona. Það er bara erfiðast í heimi að finna vinnu þegar maður veit hvernig næsta vika lítur út með vikufyrirvara.

Er farin að hafa áhyggjur af búningadæminu fyrir Hugleik. Dreymdi reyndar seinustu nótt lausnir á öllu og bara gebbaða hugmynd fyrir verkið. Því miður man ég ekki mikið af því núna. Man bara eftir einni hugmynd en ekki fyrir hvaða karakter það var.

Og er að fá hjartaáfall yfir því hvað er stutt í inntökuprófin....BRAAAAA!

Mætti galvösk á Óperustúdíóæfingu í kveld og kunni flestalla kórana...en það vantaði fólk í mezzoinn en þar sem sópranar byrja oftast að kipra saman varirnar og, einhverra hluta vegna, klemma saman lærin þegar þær eru beðnar um að syngja fyrir neðan G þá ákvað ég að skella mér í neðri rödd, eins og svo oft áður, enda þykir mér alveg óendanlega gaman að leika mér með neðra sviðið. En það þýðir að ég þurfti að læra alla kórana upp á nýtt, en þá kann ég þá bara í báðum röddum. Þýðir þá kannski líka að ég mun ekki njóta mín eins vel í þessu eða fá eitthvað mikilvægt út úr þessu raddlega séð. Oh well!

Núna er ég bara byrjuð að blaðra og blaðra.

Þegar ég var lítil náði ég að láta frænda minn borða lambaspörð með því að ljúga því að honum að þetta væru risa-krækiber. Fékk samviskubit eftir á en þetta fær mig samt til að brosa í dag. Samt ekki fallega gert.

Ég bjó líka til leikhús í kjallara vinkonu minnar sem bjó við hliðina á mér. Svo æfðum við upp leikrit, þar á meðal eitt sem mig dreymdi og skrifaði svo niður, og gáfum miða með tombóluvinningum, en við vorum mjög duglegar við að halda tombólur. Vorum með sjoppu, einn væng og læti.

Labbaði ég oft í skólann í hálftíma því ég nennti ekki í strætó.

Lék ég mér í Ráðhúsinu án þess að maður þekkti nokkurn sem ynni þar. Vorum mikið í bílakjallaranum, utan í húsinu og á fyrstu hæðinni, enda erfitt að komast nokkuð annað.

Röltum við systur oft inn á Sólon bara tvær og heilsuðum upp á lið sem við vissum að var oft þar. Vinsælust hjá okkur var Magga Vill...shit hvað við höfum verið leiðinleg börn.

Við settumst líka oft niður í barnadeildinni í Eymundsson í Austurstræti og dunduðum okkur við að lesa og lesa bækur.

Var ég alltaf með festi um hálsinn sem samanstóð af allskonar lyklakippum!!! Var samt bara með 3 lykla á þeim...!

Fór líka á námskeið í 7. bekk þar sem ég lærði að framkalla svarthvítar myndir.

Svaf alveg nokkrum sinnum yfir mig í 2.-4. bekk þó ég þyrfti ekki að mæta fyrr en hálf eitt!

Skemmtilega useless upplýsingar um barnæsku mína í tilefni af andvöku minni. Man samt ekki bestu söguna sem ég ætlaði að segja...það verður bara að hafa það!

En núna SKAL ég sofna því það er söngtími eftir 6 tíma...