Vá hvað ég hef ekki verið í stuði til að blogga lengi. Ætlaði alltaf að setja færslu um skólann hingað inn bara rétt eftir að ég var komin, svona á meðan þetta væri allt ferskt í hausnum, en gerði ekki. Er samt að pæla í að skrifa um það sem situr enn eftir.
Skólinn var æðislegur í ár, miklu skemmtilegri en í fyrra. Það var svo skemmtileg stemming í gangi. Ég fór á námskeið til Stephen Harper, sem er hreinræktaður snillingur með meiru, og var það mjög skemmtilegt en líka pínu erfitt. Húmorinn var staðsettur fyrir neðan belti og maður hló eiginlega allan daginn. Mér hefur alltaf fundist kokteilsósa lítið spes en allt í einu fékk ég ekki nóg af henni ;o) Við fengum að lemja vini okkar, elska vini okkar, misnota vini okkar, hlæja að vinum okkar og finna til með vinum okkar. Við vorum líka oft með grímur og það var alveg endalaust gaman að vinna með þær!
Og það var farið í blak, gufan var brúkuð á hverju kveldi enda ekkert betra en að sofna eftir góða gufu með innbyggðu nuddi í ;o) Það var kvöldvaka og á henni komst ég að því að ég var víst athyglissjúkasta manneskjan á svæðinu ;o) Víðir var næst athyglissjúkastur. Athyglissýkin lýsti sér að að við stelpurnar sem vorum saman í herbergi (ég, Rósa, Fanney og Una) sungum allar saman, ég söng Svarfaðardalinn með Hrefnu og Árna til að gefa réttu stemminguna í söguna hennar Siggu Birnu, við Árni sungum saman Come what may úr Moulin Rouge og létum taka okkur af lífi og að lokum tókum við Víðir verðbréfadansinn úr Bingói sem tókst líka svona vel :o) Hápunktur kvöldsins var atriðið hjá Gunna og Snorra úr sýningunni Dauði og jarðarber!
Við fórum líka í heimsókn til Berngt (eða hvernig maður skrifar það, ætla ekki einu sinni að reyna við seinna nafnið) brúðusmiðs og skoðuðum verkstæðið hans og fengum að kynnast nokkrum brúðum og sjá Ástarsögu og hlaupigaurinn úr Umbreytingu.
Nú busunin var á sínum stað. Ég var víst enn busi þar sem ég missti af herlegheitunum í fyrra. Þetta var nokkuð skemmtilegt hjá þeim og lögðu böðlarnir mikið í þetta. Una og Rósa voru svo mikil yndi í að vera ógeðslegar, eru bara allt of sætar til að þeim takist það. Víðir var scary og hélt ég að hann myndi kannski bara missa það í alvöru. Fyndnast var samt þegar við vorum sett inn í gufuna, ég vissi nefnilega alveg hvað var að fara að gerast ;o)
Shit ég var næstum að gleyma Bandaleikunum 2007! Þetta er skemmtilegasta keppni sem ég veit um :o) Ég var í hópnum Dyspraxic sem er orðið yfir þá sem hafa ekkert fjarlægðarskyn. Okkur fannst þetta góð hugmynd þangað til við fórum að reyna að borða og drekka. Vorum örugglega mest edrú lið keppninnar ;o) Og svengsta! En sem betur fer var bæði Hjálparsveitarlið og Ofurhetjulið! Og fjórða liðið var Ladies and gentlemen. Allt kvöldið vorum við síðan að labba á, detta, missa hluti, vera langt í burtu, vera alltof nálægt, etc. Fengum líka að hengja þvottaklemmur á allskonar líkamshár kennarans okkar nokkurra og kippa þeim svo í burtu, teikna á borð, syngja lag um það að vera dyspraxískur, veiða skordýr, halda ræðu með engum S-um og kasta pappaflugvél, en okkar flugvél flaug lengst vegna þess að við komum ekki vængjunum á hana ;o) Þegar liðið okkar var svo orðið vel blátt og blóðugt fengum við að vita að VIÐ UNNUM! :oD
Lokakvöldið var mjög skemmtilegt. Við komum Stephen á óvart með því að búa til Stephen-grímur á okkur öll og gáfum honum áfengi og geisladisk og bók sem innhéldu íslenska menningu. Maturinn var góður og svo dansaði maður frá sér allt vit. Svo var stiginn faðmlagadans í rúman klukkutíma þar sem maður var einhversstaðar milli svefns og vöku. Svo fór maður að sofa :o)
Svo útskrifuðumst við öll og kvöddumst.
Eins gott að ég skrifaði þetta ekki fyrr! Hvað ætli það hefði verið langt!
sunnudagur, 1. júlí 2007
Svarfaðardalurinn
Birt af jennzla kl. 22:23
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli