sunnudagur, 26. ágúst 2007

Haust

Þá er ég komin í sokka og það þýðir að það sé komið haust.

Held að þetta sé besti tíminn á árinu. Verst bara hvað dagarnir eru lengi að líða þar sem maður situr bara í bíður eftir að skólinn verði settur, leiksýningar og óperur frumsýndar, tónleikar haldnir og rútínan komist í gang.

Er fyrir norðan í þessum töluðu orðum. Það var haldið eitt stykki ættarmót um helgina. Hamramenn hittust og glöddust saman, og þessi ætt kann sko að gleðjast!

Það brakar og brestur reyndar í skrokknum við minnstu hreyfingu, og er þannig hjá öllum en vilja flestir meina að Freydís Anna eigi þar mestan hluta í máli þar sem hún stjórnaði leikjum á Hamratúninu af stakri snilld. Held þó að fólk geti að einhverju leiti kennt sér sjálfum um þar sem mikið keppnisskap einkennir þessa ætt. Veit ekki alveg hversu góð hugmynd það er þá að láta alla keppa í leikjum á móti hvert öðru.

En eins og þessi ætt getur verið skapheit þá voru allir í sínu blíðasta formi um helgina og það var mikið gaman.

Þetta verður svo endurtekið eftir þrjú ár.

Á morgun hoppa ég svo heim, kem of seint á masterklassa og fer í einkatíma hjá Elizabeth Meyer-Topsöe. Er svo engan vegin í söngformi þessa dagana en maður lærir víst líka á því þar sem að söngnám snýst aðallega um að geta líka performerað vel þessa 358 daga á ári sem maður er ekki í toppformi.

Og þannig var það nú.

miðvikudagur, 22. ágúst 2007

Andvökunótt og bók

Æji, ég er andvaka!

Oftast er mér sama, því ég er frekar mikill nátthrafn, en þegar ég þarf að mæta í vinnu daginn eftir þá fer það í taugarnar á mér. Finnst erfitt að fara í gegnum daginn lítið sofin.

Þetta pirrar mig líka því ég þurfti að kljást við þetta vandamál næstum allan seinasta vetur.

Er að lesa bók núna sem er svo falleg, jafnvel þó það sé margt ófallegt í henni. Orðalagið er bara svo fallegt og svo hreinskilið sagt frá tilfinningum og hugsunum. Hef lengi ætlað að lesa þessa bók og loksins lét ég verða af því. Hún heitir Hundrað ára einsemd og hef ég heyrt svo vel af henni látið að ég varð að lesa hana. Líkist kannski soldið Heinesen.

Ég er loksins farin að sinna gömlum áhugamálum aftur, eins og að lesa bækur og horfa á bíómyndir. Líður rosalega vel með það! Var farin að sakna þeirra en ég fann aldrei eirð í mér til að horfa á mynd eða lesa bók...það var eins og mér fyndist að ég ætti að eyða tímanum í eitthvað nytsamlegra...og eins skrítið og mér finnst það þá var það þannig!

En núna ætla ég að reyna aftur að sofna...eða halda áfram að lesa.

laugardagur, 18. ágúst 2007

Ég elska tölvuna mína!

Reyndar er þetta ekki tölvan mín...ég er samt eiginlega bara búin að eigna mér hana, meira að segja búin að nefna hana. Hún heitir Muriel the Maid.

Ég elska tölvuna mína því í henni get ég talað við annað fólk, bæði strax og líka skrifað eitthvað sem það les seinna, bæði sérstaklega til einhvers eins, til valins hóps eða eitthvað sem allir í heiminum geta séð (en aðeins um 300.000 manns skilið).

Einnig get ég hlustað á allskonar tónlist þó svo ég eigi hana ekki...en þá má ég líka ekki vera of pikkí. En ef ég vil heyra eitthvað sérstakt lag getur hún líka séð til þess að ég fái að heyra það.

Svo get ég horft á þætti og bíómyndir! Það er eiginlega best! Get horft á það sem ég á og líka fullt af dóti sem ég á ekki! Þetta er eiginlega besti fítusinn og sá sem yljar mér mest um hjartarætur.

Næst besta atriðið eru öll fötin sem ég get skoðað!!!! My oh my! Ég elska föt! Elska að skoða snið, efni og liti! Er voða lítið farin að fara út fyrir MySpace í þessum efnum en fikra mig hægt og smátt út í hinn stóra heim netverslunar. Best finnst mér að ná í hluti sem kosta ekki mikið en eru gebbað flottir!

Margir nota tölvuna sína til að njósna um fólk...ég hef lítið notað það en það getur verið ágætis dægrastytting...en þá veit ég líka að ég er farin að eiga alltof mikin frítíma og tek þá við einhverju félagi til að stjórna ;o)

En það er alltaf gaman að gera fylgst með vinum og félögum án þess að þurfa að hafa of mikið fyrir því eða þurfa að pæla í hvaða tími sólarhringsins sé.

Og núna er ég löggst upp í rúm með elskuna mína og ætla að horfa á einn þátt eða svo :o)

Verið betri hvort við annað...og vakið lengur!

fimmtudagur, 9. ágúst 2007

Nei sko!

Blogg fyrir Fiskidaginn!!! Ekki bjóst ég nú við þessu!

En rigningin blés mér andagift í brjóst...og það að ég nenni ekki strax í sturtu því ég get ekki hætt að hugsa um hvað ég á eftir að gera margt í nótt áður en ég fari að sofa, sem er slæmt því ég fer að vinna í fyrramálið og þarf svo að keyra norður strax eftir vinnu og býst við að vera vakandi eitthvað frameftir á morgun :o/

Þannig til að verða örugglega örmagna næstu nótt þá hef ég ákveðið að blogga!

Langar mest til að leggjast út og láta rigna á mig. Elska svona hellidembu!

Þegar ég var lítil bjó ég í Álfalandinu eitt sumar með pabba og Fanneyju. Þar vorum við hópur ef 10-15 stelpum sem vorum alltaf að leika okkur saman. Í þau fáu skipti sem það kom svona hellidemba hættum við öllu strax, hvort sem við vorum í Fallinni spýtu, hestaleik, horfa á þyrluna taka á loft eða lenda eða bara að rölta, og hentum okkur á næstu stétt og stóðum ekki upp fyrr enn allt var orðið vott í kringum okkur og þá sáum við för, mis-súrrealísk, nákvæmlega mótað eftir legu líkama okkar.

Þetta var voða mikið sport og fyllti mann orkumikilli gleði. Og alltaf þegar ég lendi í svona hellidembu nú til dags langar mig bara að henda mér í jörðina og finna regndropana lenda á andlitinu og gegnbleyta fötin hægt og rólega.

-----------------------------------------------

Ég er í furðulegustu vinnu sem ég hef unnið. Þetta er líklega bara ein furðulegasta vinna sem til er.

Ef ég ætti að lýsa vinnunni minni í einni setningu myndi ég segja að ég ynni við að þurrka upp svita eftir annað fólk, því hún snýst aðallega um það. Og það er skrítið að vinna við ÞAÐ.

Um daginn var viðsiptavinur sem brann svakalega á rassi og efra baki. Honum fannst ekki nóg að sýna mér bara bakið heldur þurfti hann líka að sýna mér rassinn á sér! Og til að toppa allt þurfti ég að vera nokkrar umferðir af After Sun á hann (samt bara á bakið, sem betur fer!).

Fólk gengur líka um á handklæðinu einum fata eins og ekkert sé, bæði karlar og konur í bland. Skemmtileg stemming sem myndast við það!

Svo er ég orðin býsna fróð um hin og þessi krem, eitthvað sem ég hefði annars aldrei sett mig inn í. Við systurnar stóðum okkur svo að því um daginn að vera að ræða þessi krem af ákafa um daginn, en munum aldrei viðurkenna að við vitum eitthvað um þetta.

Svo þarf ég að fara í ljós. Ef ég er ekki brún og sæt þá tekur viðskiptavinurinn ekki mark á því sem ég er að reyna að selja honum, satt og sannað! Það hlýtur að vera innifalin áhættuþóknun í laununum.

-----------------------------------------

Ég er í nýrri tölvu núna. Ný tölva er kannski ekki rétt þar sem þetta er tölva sem mamma er búin að eiga lengi. Samúel Gaylord er við það að gefa upp öndina, er farinn að deyja 3x á dag. Hann deyr líka ef ég fer inn á síður þar sem er mikið af svona Flash-dóteríi...ég get ekki verið inni á www.MySpace.com , því þar eru einhverjar leiðinda auglýsingar, get ekki farið inn á www.director.is því hún er bara of kúl fyrir Samma gamla, get ekki horft á neitt á www.tv-links.co.uk , því að spila video er bara of erfitt, og fullt af fleiri síðum sem ég man ekki eftir akkúrat núna. Stundum deyr hann líka bara alveg að sjálfu sér!

-----------------------------------------

Jæja, þetta er orðið ágætlega langt blogg um ekkert og slefan, sumsé sturtukvikindi heimilisins, bíður ekki að eilífu...eða hvað?

mánudagur, 6. ágúst 2007

Krossfest, dáin og grafin!

Ég er þreyttari en ég hélt að væri hægt án þess að gefa upp öndina!

Erfið helgi að baki sem var samt ótrúlega skemmtileg þrátt fyrir yfirfylli af óvæntum uppákomum!

Erfið helgi framundan...vonandi samt ekki jafnerfið og seinasta helgi!

Vakandi manns draumur gekk vel og líka Rauðhetta...minni á seinustu sýningu í Reykjavík þriðjudaginn 7. ágúst kl. 19:00 í Öskjuhlíð.

Það erfiðasta við að læra er það að vera vitlaus rétt á meðan...
...en maður er þó fróðari eftir á.

Efast um að bloggþörfin hellist það sterklega yfir mig næstu vikuna að hún yfirvinni svefnþörfina.

Heyri í ykkur eftir Fiskidaginn mikla!