föstudagur, 30. nóvember 2007

13

hahaha næ meira að segja bloggi nr. 13 í þessum mánuði ;o)

Er að hressast...lét lækni skoða mig í gær og með honum var læknanemi og það þurfti að troða myndavél í gegnum nefið og ofan í kok. Raddböndin mjög vel útlítandi en það er sýking í eiginlega bara öllum öndunarveginum. Fékk lyf en ég held að ég sé að finna fyrir aukaverkunum...þarf að kanna það betur áður en ég verð viss. Hata að hafa ofnæmi fyrir pensillíni!

Annars held ég að ég hafi loksins verið að koma mér alminnilega fyrir í herberginu mínu. Þá á ég við að það lítur núna út eins og herbergi sem Jenný gæti átt. Vantar samt eitthvað pínu upp á en held það verði ekki betra en þetta.

Matarboð hérna heima í kveld og svo vinna kl. 22:00. Er varla búin að fara út úr húsi alla vikuna og hlakka mikið til að komast út og hitta fólk.

Voðalega líður tíminn annars hratt! Það eru bara alveg að koma jól!

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Merkur áfangi

Í dag næ ég 12 bloggfærslum í þessum mánuði. Hef aldrei bloggað oftar en 11 sinnum í mánuði hingað til...allavega ekki á þessu bloggi. Merk tímamót.

Er að reyna að halda mig heima og vona að það hjálpi til við að sigra þessi veikindi mín. Hef ekki verið að leyfa mér það. Kannski þess vegna sem ég hef bara orðið veikari og veikari. Langar samt að gera svo margt. Þarf að gera svo margt. En ég vil vera orðin sem frískust fyrir helgina því þá er margt sem ég þarf að gera, eins og að vinna, og svo er ég búin að kaupa miða á tvær leiksýningar. Og melda mig á æfingu. Verð að vera orðin frísk þá.

Enda ætla ég að láta öllum illum látum þangað til að einhver læknir drullast til að kíkja ofan í kokið á mér á morgun þegar ég fer upp á háls-, nef- og eyrnadeild! Ótrúlegt hvað þeir eru búnir að vera ragir við það! Vissi ekki að ég væri svona andfúl ;o)

Held að ég sé núna búin með 5 diska af 7 af Grey's...spurning hvað gerist þegar ég klára þá alla?!?

Urr vill einhver koma og galdra hálsinn minn í lag! Verð að geta æft mig! Maður nær bara ákveðið miklum/litlum árangri við að pikka upp laglínur og læra texta...og ég get aldrei haldið kjafti allan tíman á meðan ég reyni að æfa mig svona...

...Þess vegna er ég heima að horfa á dvd...er að athuga hvort minnkuð notkun á röddinni lagi þetta ekki smá...

...en í sannleika sagt þá drulluleiðist mér!

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Fjórar vikur af veikindum

Þá er maður komin með vinnu. Það er alltaf jákvætt.

Er búin að vera ósyngjandi núna í nærri 4 vikur. Það er neikvætt. Er að fara í steraöndun á morgun og ef það virkar ekki nógu vel þá á ég að hitta lækni á mánudaginn. Einhver sagði mér nú samt að steraöndunin væri last resort þannig ég er svona ekkert rosa sátt með þetta. Hefði viljað að sérfræðingur myndi fyrst kíkja á þetta.

En ég vona að ég verði komin í lag næsta miðvikudag, og helst fyrr, því þá þarf ég að syngja á tvennum tónleikum. Aðrir byrja kl. 20:00 og er ég að reyna að fá að í gegn að atriðin tvö sem ég á að syngja í þar verði fyrst svo ég geti mætt á hina tónleikana sm hefjast kl. 21:00. Erfitt þegar fólk þarf að breyta dagsetningum með svona stuttum fyrirvara.

Fór á Óperuperlurnar í ÍÓ á laugardaginn. Það var mjög skemmtilegt. Þegar söngvarar eru góðir leikarar þá komast þeir upp með fleira en ef þeir væru bara söngvarar. Þetta voru samt allt magnaðir söngvarar og áttu Diddú og Bjarni besta leikinn. Ágúst er orðinn miklu liprari á sviði, en ég man eftir því þegar ég sá hann fyrst í óperu...hann var stífari en spýta...en eins og ég segi alltaf að batna og batna og er orðinn nokkuð skemmtilegur á sviði núna. 'Otrúlega skemmtileg kveldstund í Óperunni.

Svo á sunnudagskveldið fór ég loksins á Killer Joe. Mér fannst þetta stórskemmtileg uppsetning og flottur leikur hjá liðinu. Björn fannst mér alveg óborganlegur...og hann minnti mig svo á einhvern en ég get bara ekki munað hver það er! Allavega virkilega creepy og klikk. Líka gaman að sjá Unni leika svona týpu og gerði hún það mjög vel. Maríanna Clara er gebbað góð! Held að hún eigi vinninginn í þetta skiptið. Þessi stelpa kann sko að leika! Jörundur klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Alltaf sama unun að horfa á manninn leika og gaman að sjá hann aftur á sviði. Held ég hafi ekki séð hann á sviði síðan hann var í Penetreitor. Þröstur Leó var líka alveg fullkominn í pabbann sem er eiginlega alger aumingi. Mæli með þessari sýningu en það eru víst bara þrjár sýningar eftir af þessu núna og er uppselt á allar.

Gaf síðan Fanney systur loksins afmælisgjöf í gær. 3. Serían af Grey's Anatomy. Það þýðir auðvitað að maður er lagstur í gláp og erum við strax búnar með 2 diska af 6 held ég. Enda fátt annað að gera þegar maður er lasinn.

En núna ætla ég að reyna að borða.

Túrílú!

laugardagur, 24. nóvember 2007

Í kveld:

Skemmti ég mér stórvel á Nokia on ice með fríu öli og æðislegum böndum...söngkonan í Bloodgroup er án efa mest sexy kvenkyns performerinn á Íslandi í dag eins og Steini hjá Fréttablaðinu vildi meina...

Fékk ég svo eftir þessa hátíð vinnu á Næsta bar...byrja á morgun...verð að sleppa vinadjammi þá en vinna er vinna!

Fann ég út að mútta er óútreiknanleg á djamminu og hugsar ekki lengra en nef hennar nær...en það er nú bara charisma út af fyrir sig ;o)

Komst ég að því að stjúpfaðir minn er farinn að taka stjúpföðurhlutverk sitt mjög alvarlega ;o)

Missti ég röddina en hún er núna bara svona sexy eins og vinkona mín hún Pheobe vill meina!

Dadadadadadadadadadadada don't worry be happy!!!

föstudagur, 23. nóvember 2007

Hvað gerir maður þegar maður er búinn með Netið?

Fór að leiðast á Facebook þar sem það hrúgast inn invitations og notifications og ég nenni bara ekki að fara í gegnum þetta allt enda er ekki helmingurinn af þessu intressant!!

Þannig ég gúglaði sjálfa mig...Það var fróðlegt!

Komst að því að það er ólíklegasta fólk sem les bloggið mitt og að það er allskonar fólk með mig í tenglum!

Reyndar hef ég náð að halda þessari síðu leyndir frekar lengi og eru margir vina minna búnir að halda í næstum ár að ég sé hætt að blogga :oD Það fannst mér fyndið!

Fór í leikhús í kveld, nánar tiltekið á Frelsarann í Þjóðleikhúsinu. Ég skemmti mér mjög vel og naut sýningarinnar þó svo að það hefði mátt þétta hana til muna og stytta sum atriði og sumum atriðum botnaði maður hvorki upp né niður í...En flott sýning engu að síður og ég sá ekkert eftir því að hafa farið á hana. Strákarnir tveir voru drullugóðir en mér fannst stelpan bara svona lala...hún skemmdi sýninguna samt ekkert, en stundum fékk ég smá svona "æhh" niður bakið.

Fór líka á tónleika hjá Hraun í gærkveldi. Þar voru þeir að spila lög sem koma til greina að fara á næstu plötu og fengu tónleikagestir að hjálpa til við valið. Þeir voru góðir að vanda.

Áðan var síðan hringt í mig og mér boðið VIP á Nokia On Ice eða hvað það nú heitir. Ég sagði nú bara já takk þó svo ég hafi ætlað að vera róleg annað kveld. Fínt að fara og hlusta á góðar hljómsveitir spila og svona :o)

Svo kemur Vala heim á sunnudaginn!!!!!! Hæ hó og jibbíjei!

Og amma Erna kemur til landsins á morgun!!!!! Jibbíjei!

Og ég fæ að sofa út á morgun!!! Hósíanna í upphæðum!!!!

Annað fyndið við að gúgla sig...þá rekst maður á gömul blogg og komment eftir sjálfan sig sem maður man ekki eftir að hafa skrifað og kynnist sér sem skrifara í leiðinni...það er pínu skrítið...!

Annars er aksjónin að gúgla sjálfan sig skrítin. Myndi örugglega flokkast undir sömu skringilegheit og að tala við sjálfan sig. Var ekki alltaf sagt að þeir sem töluðu við sjálfa sig væru geðveikir? Á þá það sama ekki við um að gúgla sjálfan sig? En það er nú ekkert geðveiki að tala við sjálfan sig þar sem það gerir það held ég að minnsta kosti annar hver maður....Á það sama við gúgl? Gúglar sig annarhver maður?

Og er þá annar hver maður geðveikur?

Hefuru gúglað sjálfa/n þig?

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Í dag...

- Vaknaði ég snemma því það þurfti að þrífa herbergið mitt (dekur?)
-Lærði ég 4 lög utan að og loksins loksins resitatívið við Lascia Ch'io pianga (er haldin frestunaráráttu gagnvart resitatívum)
-Notaði ég hálfa flösku af Hot Chilli Sauce við að borða 3 kjötbuff (elska elska elska sósur!)
-Fór ég á búðarráp (hef ekki gert það FÁRÁNLEGA lengi!)
- Það var einstaklega fullnægjandi! (Við erum samt bara að tala um klukkutíma)
-Keypti ég mér bol og lét taka annan frá ( my heart skipped a beat)
- Á ég greinilega einstaklega erfitt með að skrifa KEYPTI (náði held ég öllum öðrum samsetningum á þessum stöfum áður en ég náði að skrifa það)
- Vann ég fyrsta kveldið mitt hjá Miðlun (það var furðulega endurnærandi fyrir sálina)
- ákvað ég að nýta reynslu mína sem sólbaðstofuvörður og sækja um á einhverjum stofum
þar sem að ég er ekkert að heyra frá þessu liði sem ég er búin að vera að sækja um á!

Á dagskrá er svo að sinna skólanum vel, læra Barbarinurulluna með hinum Barbarinunum, fara á Frelsarann, æfa nýtt verk með Hjárómi, vinna aftur á Miðlun, fá bækur að láni og vera til :o)

Leiðinlegt blogg...fínasti dagur.

sunnudagur, 18. nóvember 2007

Íslandsklukkan

Ég kíkti norður (heim) um helgina til að hitta fjölskyldu og vini og til að sjá Íslandsklukkuna sem Leikfélag Húsavíkur var að frumsýna.

Ég er nú frekar mikið tengd þessari sýningu þar sem það var hann karl faðir minn sem leikstýrði, en ég ætla samt að segja hér hvað mér fannst og held að ég sé nú bara nokkuð hreinskilin.

Leikarar- Leikararnir stóðu sig með mikilli prýði og ekkert í leiknum sem fór fyrir hjartað á manni. Misvant fólk á ferð eins og gengur og gerist en allir geta verið ánægðir með frammistöðu sína. Þeir karakterar sem sitja mest eftir í mér eru Snæfríður eldri, Jón Hreggviðsson og Jón Marteinsson, en einnig voru góðir karakterar Domkirkjupresturinn, Júnkærinn, Arnas Arnæus, Snæfríður yngri og Jón Grinvicensis. En eins og ég segi þá var hvergi brotalöm í leiknum og mega því allir vera sáttir með sig.

Tónlist - Tónlistin skipar stórt hlutverk í þessari sýningu hjá Leikfélagi Húsavíkur og lifir tónlistin undir verkinu næstum allan tíman. Tónlistin er frumsamin af Guðna Bragasyni og þjónar verkinu afskaplega vel. Skapar alltaf sterkt andrúmsloft. Hún er einnig þannig að maður tekur endilega ekkert mikið eftir henni þegar hún lifir undir textanum, truflar því ekki, heldur hjálpar án efa mikið. Það er mikill og þungur texti í þessu verki sem oft getur þreytt bæði áhorfandann og leikarann, en það gerir það aldrei í þessu verki. Það var einungis á þremur stöðum þar sem mér fannst að það mætti breyta um stef og oftast breyttist það mjög fljótt eftir að þessi hugsun flaug í gegnum huga minn. Söngurinn hjá Sigga Ill er líka undurfagur.

Lýsing - Lýsingin fannst mér æðisleg. Í forleiknum er hún frekar dimm, græn og dulúðleg og er örugglega mesti faktorinn í að hann virkar. Þar er verið að kalla söguna fram og sjáum við bita og bita úr sögunni koma fram á sjónarsviðið. Lýsingin þar var þannig að mér fannst ég algerlega vera komin í annan heim, missti eiginlega allt raunveruleikaskyn. Það var býsna magnað. Þar sem leikmyndin er einföld er margt skapað með ljósum og tekst það fullkomlega. Skálholt, Þingvellir og Kaupmannahöfn eru líka sýnd með sniðugum lausnum. Man líka að mér fannst lýsingin góð á grímudansleiknum, þegar Snæfríður og Arneus láta sig dreyma um betra Ísland og þegar Snæfríður snýr sér hægt í hring rétt áður en hún talar við Dómkirkjuprestinn.

Búningar og hár - Þjóna sýningunni vel, enda útlitið tekið frá þeim tíma er sagan gerist á. Hrós fá allir sem fórnuðu sér í miklar hárbreytingar og er ótrúlegt hvað fólk hefur samþykkt að láta gera við hausinn á sér!

Leikmyndin - Einföld og stílhrein. Sviðið er grænleitt og er leikmyndin pallar í sama lit sem er raðað mismunandi upp eftir því á hvaða stað við erum. Skiptingar tóku kannski stundum langan tíma en alveg greinilegt að það hefði nú ekki verið hægt að stytta það mikið meira. Svo auðvitað meyjarhaftið sívinsæla ;o) En heildin er góð lausn á litlu sviði.

Heildarsýn - Falleg og yfirveguð sýning sem hefur draumkennda áferð. Er næstum því ekki viss hvort mig dreymdi þetta eða hvort þetta fór fram í alvöru.

Ég kann nú ekki að skrifa um leikhús en ég held að ég sé búin að koma því til skila sem mig langaði að segja um þessa sýningu. Þetta er ekki sýning þar sem maður hoppar úr sætinu strax og henni lýkur og júbbílerar yfir því hvað hún var mögnuð, heldur situr hún áfram í manni og gerjast vel. Aðeins ein önnur sýning hefur gert það en það var Memento Mori. Þessar tvær sýningar eru þó ólíkar í leikstíl. Ég tók ekki eftir því hvað sýningin væri löng og var í raun hissa á að það væri komið hlé strax, en þá var rúmur klukkutími frá því að hún hófst.

Ég mæli bara eindregið með að fólk fari og kynni sér sjálft það sem er í gangi á Húsavík og held ég að ég geti með sanni sagt að það á ekki eftir að verða fyrir vonbrigðum!

Takk fyrir mig og til hamingju með flotta sýningu!

Þetta er nú líkast til orðið ógnarlangt blogg hjá mér. Ferðin var góð í alla staði og hélt ég mér mest með fjölskyldunni minni og skemmti mér vel með henni. Hitti líka Gunnhildi sem var voða gott enda hef ég ekki séð hana í allavega 2 ár! Þegar ég mætti svo á flugvöllinn voru Hanna og Íshildur þar og sátum við í sömu röð þannig ég náði líka góðu spjalli við Hönnu og komst að því að við erum með lík plön á næstunni þannig vonandi á maður eftir að sjá meira af henni, já og þeim mægðum. Skammast mín eiginlega fyrir að segja það en ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég sé Íshildi :o/ Lélega Jenný!

Og núna er ég heima í Reykjavíkinni að njóta þess að gera ekki neitt þó að herbergið sé í rúst, ég eigi eftir að pakka upp og ætti kannski að vera að læra ;o)

fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Maður hefur nú lent í öðru eins í vetur!

Jæjah!

Veit ekki afhverju ég ákvað að blogga...er líklegast að fresta því að fara að hátta...ég er með mikla frestunaráráttu!

Ekki mikið búið að ske...

Er orðin léttari í lund en upp á síðkastið...það er mjög gott! Er að finna nýjar og nýjar aðferðir til að vera jákvæð...það er víst léttara... sögðu kratarnir allavega...!

Framhaldsprófstónleikamaraþon um helgina...Var á tónleikunum hjá Höllu og Ólöfu áðan og þeir tókust mjög vel hjá þeim og mega þær vera mjög stoltar með sig...ég er allavega mjög stolt af þeim :o)

Ætla norður á morgun...Pabbi er búinn að vera að leikstýra af miklum móð fyrir norðan...á Húsavík nánar tiltekið...Ákvað að setja upp Íslandsklukkuna, ekkert minna...Hlakka til að sjá það en frumsýningin er á laugardagskveldið. Nánar um þetta á leiklist.is

Hlakka til að hitta fólkið mitt...ætlaði nú reyndar að fara í dag en þar sem óperudeildin byrjaði svo snögglega aftur þá varð ég víst að fresta brottför um sólarhring. En þar sem ég flýg þá sakar það nú ekki mikið.

Dúbbídúbbídú, dúbbídúbbídú - úr hvaða lagi er þetta? Ein vísbending - það er íslenskt.

Þjóðleikhúsdagskráin tókst vel...betur á sunnudaginn en á þriðjudaginn en mér finnst það einhvern vegin alltaf vera þannig. Held það ætti að taka það upp að þeir sem vilji geti rennt atriðunum sínum fyrir þriðjudagssýninguna.

Held að ég ætli ekki eins mikið til útlanda í sumar eins og planið var...Er að pæla í að fara pínu til útlanda og svo vinna eins og hestur inn á milli...jafnvel fyrir norðan...það væri voða ljúft..enda svosem ekki mikið annað hægt að gera en að vinna þarna og jú slaka á og lesa bækur, horfa á dvd, njóta náttúrunnar, njóta þess að vera með fjölskyldunni, hitta ömmu, hitta vini mína sem búa þar og ég sé alltof sjaldan og heyri alltof sjaldan í...it would be nice...

Er að byrja að setja niður listann minn fyrir 7. stigs prófið og líka fyrir tónleikana mína í mars því eftir áramót mun ég ekki hafa tíma til þess. Ætla þá að vra komin nokkuð vel með þetta og halda þeim við og verða pott þett á þeim. Svo eru það þessar tvær óperuuppsetningar. Kann nú helminginn af því sem Barbarina syngur í Fígaró en þarf að læra kórinn þar og lokasönginn mikla sem hún tekur þátt í. Svo að læra kórinn (heilar 4 bls. er mér sagt) í Cosi. Þá er ég nokkuð sett og get einbeitt mér að læra annað eftir áramótin.

Hlakka svo til þegar nýja árið verður gengið í garð. Það virðist ætla að byrja virkilega VEL. Það er að segja ef planið mun ganga upp, en ég held að þeir sem hafi völd til þess að eyðileggja það muni ekki gera það...vona ég.

En núna ætla ég að hætta að hugsa upphátt.

Guten abend, gute nacht.

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Sá á kvölina sem á völina!

Og ég sem hélt að ég væri búin að skera þannig niður að það yrði ekki mikið að gera hjá mér í vetur! Ákvað að taka ekki þátt í stórri uppsetningu hjá Hugleik, held ég hafi alltaf tekið þátt í einni á hverjum vetri núna eftir að ég flutti suður. Og ég ætla fyllilega að standa við það! Vandamálið er bara að í staðinn mun ég taka þátt í þremur óperuuppsetningum!!

Held það kallist ekki að skera niður!

Reyndar er ein uppsetning búin og í dag byrjaði undirbúningur fyrir næstu sem verður frumsýnd í lok janúar á næsta ári. Það er nemendaóperan í skólanum sem er að setja upp Brúðkaup Fígarós með 40 nemendum! Og hvernig fá 40 nemendur eitthvað að gera í einni uppsetningu? Jú, hlutverkin eru bara bútuð niður og fær hver nemandi sinn bút að læra. Ég er ein af fimm Barbarinum. Reyndar er eitthvað vesen með það þar sem karakterinn syngur bara eina litla kavatínu og bíðum við Barbarinurnar spenntar eftir að sjá hvernig á að leysa þetta.

Seinasta uppsetning vetrarins er hjá Óperustúdíói Íslensku Óperunnar, æfingar hefjast í febrúar. Þar verður Cosi fan tutte sett upp og er maður nú bara í kórnum þar sem hefur nú ekkert agalega mikið að gera en þó eitthvað. Bestu fréttir dagsins voru án efa að fá að vita að það væri hún Ágústa Skúla sem ætli sér að leikstýra herlegheitunum! Er farin að hlakka ógurlega til að sjá hvað kemur út úr þessu. Frumsýning áætluð um miðjan apríl.

Það skemmtilega er að í mars/apríl eiga einmitt 7. stigs tónleikarnir mínir að vera. Þar syngur maður um 10 lög minnir mig og allt á náttúrulega að vera perfect!

Og í mars/apríl er ég búin að ákveða að gera líka svo lítið annað, eins og fram kom í fyrra bloggi. Það þarfnast undirbúnings og mun því taka smá tíma frá mér frá og með deginum í gær.

Og út af þessu öllu saman verð ég að eyða sem mestum tíma í lærdóm og undirbúning núna fyrir áramótin.

Það þýðir að eitthvað þarf að fjúka...því miður...!

Það er erfitt að velja og hafna!

sunnudagur, 11. nóvember 2007

Þjóðleikhúskjallarinn í kveld!

Daddara! Þá er komið að þessu! Þessir tveir einþáttungar sem ég er búin að vera að æfa verða sýndir í kveld, ásamt 4 öðrum, í Þjóðleikhúskjallaranum kl. 20:30 (þá opnar húsið en sýning hefst kl. 21:00) og það kostar bara 1.000 kr. inn...nema ef þú ert skuldlaus Hugleikari þá er það aðeins ódýrara ;o)

Er búin að vera að undirbúa þetta í dag...og núna er ég öll klístruð í tómatsósu, Hersey's sírópi og mold...dammdaramm! Þetta var reyndar bara tilraun en ég vona að hún takist hjá mér...og að þurrkarinn skemmist ekki :o/

Var mjög dugleg og vaknaði aftur kl. 9:00 í morgun og var komin upp í skóla kl.10:00. Ákvað að hita upp og athuga hvað röddin segði gott...hún sagði ekki gott...í dag nær raddsvið mitt yfir 5und...Þannig ég bara hlustaði í tímanum og glósaði hjá mér.

Talaði við Elínu hans Gulla áðan og komst hún að því að þetta væri líklegast ennisholusýking einhver þannig að ég er bara að fara að sækja vikuskammtinn minn af sýklalyfjum og steraúða! Jahú! Hlakka til að fá hljóðfærið mitt aftur! Og að geta andað án hindranna aftur!

En já lítið að frétta annars...enda er þetta örugglega alveg nóg!

En fjölmennið nú í kveld...eða á þriðjudaginn...eða bara bæði!

laugardagur, 10. nóvember 2007

Nýtt líf, sprúðlandi af möguleikum!

Er með stíflu í nefinu sem neitar að fara og gerir það að verkum að við og við yfir daginn liggur við að ég kafni úr hori...no kidding!

Rosalega gaman að sitja í fínu mataboði og það snörlar endalaust í manni!

Dagdraumar eru æðislegir! Sérstaklega þegar maður hefur tíma til að leyfa þeim að grassera smá. Er ein heima í kveld og hef ekkert að gera og læt mig dreyma um líf fullt af hamingju og gleði, átökum og sigrum og síðast en ekki síst, fyllingu.

Er að reyna að finna búninga fyrir morgundaginn...þá er fyrsta mánaðarlega dagskrá Hugleiks í Þjóðleikhúskjallaranum - kl. 21, 1.000 kr. inn, allir að mæta - Er komin með annan búninginn. Það var líka svo auðvelt, bara bolur og buxur sem má skemma.
Hinn búningurinn er ekki eins auðveldur...er pínu týnd því karakterinn breyttist smá á seinasta rennsli og ég bara man ekki hvort búningurinn átti þá að breytast eitthvað! Shit! Annars verður þessu bara reddað með ljósum...right?

Ætti að vera í afmæli, ætti að vera að hitta Guffu, ætti að vera að æfa mig á píanóið, ætti að vera að æfa lögin mín, ætti að vera að lesa hitt og þetta, ætti að vera að skrifa fyrir jólablaðið, ætti að, ætti að, ætti að...en ég bara er ekki að nenna því akkúrat núna...!

Langar meira að segja sjúklega að sauma mér peysu og jafnvel einar buxur, en bara nenni því ekki!

Stundum er gott að vera latur...það má alveg stundum.

Er líka búin að vera svo fáránlega ofvirk í heilt ár eða svo að ég hafði ekki tíma til að átta mig á því!

En núna er ég búin að hvíla mig smá fyrir næstu hrinu sem mun allavega standa frá og með mánudeginu fram í maílok. Og mars og apríl verða hektískir! Var að taka ákvörðun sem passar ekkert rosa vel inn í tímaplanið en ég mun láta það virka.

Og aftur er lífið orðið sprúðlandi spennandi!

þriðjudagur, 6. nóvember 2007

Jólin?!?!

Ég var kvefuð, en núna er ég veik.

Það er samt frekar fínt, ágætt að hafa svona rólegt. Er bara búin að vera að horfa á dvd, hlusta á tónlist, lesa, spila á píanóið og reyndar að vinna smá. Mútta farin að stressast upp og þá getur verið erfitt fyrir hana að skilja að ég þurfi að hvíla mig inn á milli og líka að læra. Þó var það hún sem gerði það skiljanlegt fyrir mér að ég þyrfti að vera heima og hvíla mig, en persónulega fannst mér ég ekki hafa tíma til þess.

Er að reyna að læra ný lög, en það getur verið erfitt þegar nefið er svo stíflað að drullusokkur myndi hjálpa lítið. Er hinsvegar að verða þeim mun leiknari á píanóið. Að spila laglínuna í Oh had I Jubal's Lyre á píanóið er fínasta fingraæfing.

Ég er farin að hlakka agalega mikið til jólanna! Held það sé þessu jólablaði að kenna. Ég er núna búin að lesa heil ósköp af upplýsingum um uppruna jólanna, jólasveinanna, Grýlu, jólakattarins, jólakortanna, jólatrjánna og að gefa í skóinn og búin að lesa hvernig "Gleðileg jól og farsælt komandi ár" er skrifað á yfir 350 tungumálum! Er að berjast við að skella ekki jólatónlist í spilarann!

Er þó að reyna að pæla í jólgjöfunum. Ætla að reyna að vera sniðug þessi jólin. Hef alltaf eytt svo fáránlega miklu í gjafir og þá sérstaklega handa systkinum og bestu vinum. Ætla að reyna að tóna það aðeins niður. Við systur brugðum hinsvegar á það ráð í fyrra að sameinast í gjöfum fyrir fjölskyldumeðlimi. Ótrúlega sniðugt múv sem ég held að við munum endurtaka þessi jólin.

Núna er þetta blogg orðið alltof jólað miðað við að það er 6. nóvember og held ég því að ég segi þetta komið nóg og snúi mér að skrifa eitthvað sem má og á að vera um jólin.

Pozdrevlyayu s prazdnikom Rozhdestva i s Novim Godom

föstudagur, 2. nóvember 2007

Kvef!

Í dag er ég kvefaðri en ég var í gær. Í gær var ég kvefaðri en í fyrradag. Í fyrradag var ég kvefaðir en í hitt-í-fyrradag, en þá var ég ekkert kvefuð.

Er byrjuð að vinna jólablaðið með múttu. Einhver af ykkur má búast við að fá símtal frá mér á næstunni þar sem ég mun láta ykkur sitja fyrir svörum um eitthvað sem er hugsanlega hægt að tengja við jólin.

Er annars að leita mér að vinnu. Hún þarf að vera skemmtileg, sveigjanleg og helst að borga vel. Annars er mér eiginlega sama svo lengi sem hún er skemmtileg og sveigjanleg. Já, og ætli hún verði samt ekki að vera plönuð svona mánuð fram í tíman svo mútta taki hana af alvöru...held henni finnist þjónahopp ekki vera nógu stabílt. Look who's talking ;o) Ég er reyndar búin að sækja um hér og þar en ekkert búin að heyra. Boring!

Annars er mér hætt að leiðast...það var svo leiðinlegt!

Annars er ég að pæla í að fara að lifa eftir stjörnuspá hvers dags. Eins og í dag sagði stjörnuspáin mín mér að ég ætti að fara út og hitta vini mína í kveld og passa að enginn verði út undan í því og það er bara akkúrat það sem ég ætla að gera!

Er að fara á óperuna Die Verschwörenen hjá Tónó í Iðnó. Það eru víst 5 Hugleikarar tengdir þessu og svona fólk sem maður kannast við úr söngnum. Hlakka nokk til.

Og svo eftir það ætlum við að hlamma okkur inn á B5 sem þýðir að maður verður að vera ógó sætur og í fínum fínum fötum og lækka greindarvísitöluna nokkuð mikið svo maður komist inn. Ætli manni sé hleypt inn með lekandi hor? Örugglega ekki! SHit!

Þoli ekki svona dress-cote, cute-cote o.s.frv. Finnst þetta vera vitleysa sem ég skil samt alveg en samt ekki. Þegar þú ferð niður í bæ þá er allskonar lið þar. Ef þú vilt ekki hitta allskonar lið haltu þá bara partý heima hjá þér!

Ætla að fara og athuga hvað ég get mixað til að heilla blessaða dyraverðina....eða þannig!

Sem minnir mig á það að það er verið að gefa þessu liði alltof mikil völd með svona code-dæmi! Einn um daginn hleypti ekki nokkrum venjulega útlítandi stelpum inn því þær voru ekki nógu sætar, alveg nógu fínar, bara ekki nógu sætar! Og svo er verið að hleypa fermingarstúlkum inn því þær eru svo sætar! Þá vel ég nú frekar shabby bar þar sem fermingarstúlkur þora ekki inn. Gæti ælt í 14 metra boga!

En ég ætti nú kannski ekkert að vera að dæma þessar stúlkukindur mikið. Ég var nú sjálf farin að fara á Sjallan þegar ég var 15 ára en ég hef það mér til varnar að ég var ekki byrjuð að drekka, var byrjuð í framhaldsskóla og átti kærasta sem þurfti að fylgjast vel með. Og ég fór ekkert oft þá.

Lífið er þversögn!