mánudagur, 30. júlí 2007

Frumsýningarhrollur!

Jæja, þá eru bara þrír dagar í frumsýningu hjá Sýnum, ef maður telur frumsýningardaginn sjálfan með. Sýningin heitir Vakandi manns draumur og er unnin upp úr tveimur þjóðsögum um álfa.

Það er komin frumsýningarhrollur í mann...og þetta er algerlega ný gerð af frumsýningarhrolli! Hef aldrei tekið þátt í uppsetningu þar sem ég er ekki eitthvað inni á sviðinu. Skemmtileg ný reynsla.

Mér hefur líka aldrei fundist ég eiga svona mikið í sýningu. Ég hafði enga hugmynd (eða ókei kannski obbuponku) um hvað ég var að fara að gera þegar ég tók að mér að vera formaður Sýna og sjá til þess að eitthvað yrði gert. Ég hafði mikla reynslu af stjórnarsetum og formennsku, en aldrei í leikfélagi! En svo settist ég bara niður, skipulagði mig og svo var ég líka svo heppin að vera umkringd fólki sem var endalaust boðið og búið að hjálpa manni. Og sem betur fer voru fleiri sem vildu að leikfélagið lifði áfram.

Núna er svo allt að skríða saman, eða kannski frekar stökkva saman. Það virðist vera að okkur hafi tekist, með góðri samvinnu, að koma upp lítilli, fallegri sýningu sem ég vona að þið komist að sjá.

Frumsýningin er núna á miðvikudaginn, 1. ágúst, í Öskjuhlíðinni í hermannaaðstöðunni rétt við Keiluhöllina.

Aðrar sýningar eru:

4. ágúst á Hamarkotstúni á Akureyri
6. ágúst í Öskjuhlíðinni
7. ágúst í Öskjuhlíðinni
11. ágúst á Fiskideginum Mikla á Dalvík

miðvikudagur, 25. júlí 2007

Sýnir og sólbaðstofan

Jæja, það er greinilegt að það er búið að vera nóg að gera hjá mér seinustu daga!

Vann í 7 daga straight, sem er ansi mikið fyrir bakið ef maður er að bogra við að þurrka upp svita eftir fólk! Mikið líka búið að þurfa að sinna Sýnum, fórum t.d. í æfingaferð til Selfoss seinustu helgi og þar leið mér eins og heimavinnandi húsmóður á risastóru heimili! Tók til mat fyrir þau, vaskaði upp eftir þau og saumaði föt á þau ;o) Það var samt rosalega gaman og vann fólk mjög vel þessa helgi.

Svo er bara að hnýta nokkra lausa enda fyrir frumsýninguna sem verður 1. ágúst næstkomandi í Öskjuhlíðinni.

Alltaf gott að vera í leikfélagi því þá er eins og maður eigi aldrei lausa stund :o)

Við verðum svo á Akureyri um Verslunarmannahelgina, bæði með leikritið okkar og barnaatriði á lokadæminu.

Og verðum auðvitað líka á Fiskideginum Mikla með leikritið og götuleikhúsið.

Ég er að fara norður þrjár helgar í ágúst. Er að velta því fyrir mér að splæsa í flug eina af þessum helgum því ég nenni eiginlega ekki alveg að vera að keyra 3x fram og til baka...er alveg að fá nóg af þessari leið...kannski líka út af því að í svona 50% tilvika er ég að keyra hana ein!

Er að passa kettina hans Sigga á meðan hann er úti í Kóreu...þau eru voða sæt og frekar forvitin ;o) Eru búin að eigna sér stóra púðann ofan á kassanum sem geymir Myspace-fötin og stundum er Snæfríður svo frek að hún leyfir ekki Bjarti að vera þar líka...samt er þetta humongus púði!

En jæja, verð að fara að hefjast handa ef ég á að klára eitthvað af þessu sem þarf að klárast, helst í gær.

Súl súl!

mánudagur, 9. júlí 2007

Stiklað á steinum

Jæja, þá hefur maður aftur ekkert að gera. Ég er samt ekki jafn eirðarlaus og í gær :o)

Ætla að stikla hérna á því skemmtilega sem hefur skeð þessa dagana.

Fór á útgáfutónleikana hjá Ljótu Hálfvitunum og stemmingin var dúndur! Líka gaman að sjá þá loksins á sviði sem var nógu stórt fyrir þá ;oÞ Einir skemmtilegustu tónleikar sem ég hef farið á! Fór líka í útgáfupartýið eftir tónleikana og það var líka óendanlega skemmtilegt þó svo að Bakkus hefði alveg mátt vera fyrirferðaminni.

Fór í gærkveldi á opna æfingu á Memento Mori. Þetta var í þriðja sinn sem ég sé þessa sýningu og ég elska hana! Svo falleg sýning! Hún gerir mig hamingjusama svona eins og Amelie og Canto de Iemanja :o)

Á laugardaginn giftu mamma og Gulli sig :o) Athöfnin innhélt yfirlið, krjúp-vandamál og nokkur já og svo var farið upp í Hvalfjörð á Hótel Glym og þar vorum við með sal út af fyrir okkur þar sem við borðuðum, drukkum, glöddumst og spiluðum Trivial Pursuit til klukkan fjögur um nóttina ;o)

Svo er ég búin að hitta norðan-familíuna aðeins seinustu daga og er það og allt ofangreint það merkilegasta sem hefur verið að gerast hjá mér :o)

Er að spá í að fara að fá mér eitthvað aðeins í mallann og tebolla og fara síðan að lesa smá í The Rough Guide to Opera, svona svo maður viti eitthvað í sinn haus ;o)

Og er ég sú eina sem vill vera plönuð sem 3-4 mánuði fram í tíman?

sunnudagur, 8. júlí 2007

Þankagangur í boði hússins

Voðalega fer sumarið í taugarnar á mér! Fæ miklu frekar þunglyndis-tendensa á sumrin en veturnar! Get alveg orðið vitlaus.

Sérstaklega er sumarið erfitt hérna í borginni. Það einhvern vegin er bara. Ekkert meira.

Ég varð alveg rugluð í hausnum seinasta sumar og það var frekar erfiður tími og núna í sumar virðist það bara að vera að endurtaka sig. Nema munurinn er að núna er ég að taka eftir því.

En voðalega er þetta leiðinlegur tími.

Finnst að við ættum frekar að taka svona frí í desember-febrúar. Það er alveg gráupplagt að leggjast í dvala á þeim tíma árs og nýta svo sumarið í nám og starf. Kannski á þessi skoðun mín eftir að breytast eftir að ég er komin út á vinnumarkaðinn en núna er þetta skoðun mín.

Mér finnst allavega lágmark að bjóða manni upp á það að vera í skólanum á sumrin...já og án þess að maður færi á hausinn við það!

Sem minnir mig á annað sem er óréttlátt og það er að tónlistarnemar fá ekki námslán fyrr en á 8. stigi!!!! Það er rugl og bull og vitleysa! Þetta er orðin mikil vinna á 6. stigi...alveg jafn mikil og ef maður væri í háskóla...allavega í Söngskólanum í Rvk, FÍH og Tónó því þessir skólar (og kannski fleiri) bjóða upp á tónlistarnám á háskólaleveli án þess að það sé að fullu samþykkt!

Þetta er bara vitleysa og hananú!

Íslendingar eru voða stoltir af tónlistarfólkinu sínu...en ekki fyrr en það er farið að gera eitthvað merkilegt og er búið að streða og streða án mikillar hjálpar!

Og þá að öðru.

Voðalega er þetta "bara" leiðinlegt. Eins og í: Ertu bara að vinna? eða: Ertu bara í söngnum?

Mér finnst þetta voðalega leiðinlegt innskotsorð í svona setningar. Þær eiga það til að draga út sjálfstrausti fólks og margt fleira...samt tekur fólk ekkert eftir að það segi þetta...þetta er einhvern vegin fast í málnotkuninni. Ég ætla allavega að reyna eftir fremsta megni að sleppa þessu "bara" orði í svona setningum. Endilega gerið grín að mér ef ég gleymi því ;o)

Mér leiðist og þá bara spjalla ég við sjálfa mig hérna á blogginu :o)

Sem betur fer er myndavélin mín ónýt eða biluð eða eitthvað. Það var nefnilega þannig eftir að ég flutti til RVK (og sossum líka stundum fyrir norðan) að ef mér leiddist þá tók ég bara upp myndavélina og fór að taka myndir af mér...svona að æfa myndasvipinn ;o) Einn daginn ákvað ég svo að taka til í myndasafninu í tölvunni og þá átti ég yfir 900 myndir sem ég hafði tekið af sjálfri mér þegar mér leiddist...er að komast á þá skoðun að ég sé eitthvað aðeins meira en léttbiluð ;o)

Í sumar er ég að læra að eiga frítíma...Það er erfitt...Þess vegna er ég frekar eirðarlaus þessa dagana! Þetta er að gera mig vitlausa! En held ég verði að læra þetta því ég var nú eiginlega að ganga að mér dauðri! Var hættulega nálægt taugaáfalli tvisvar sinnum í vetur og ákvað þá að klára að sem ég var búin að lofa mér í og læra síðan að segja nei!

Mér fannst alltaf frekar erfitt að segja nei...kannski er það af því ég á foreldra sem sögðu afskaplega sjaldan nei við mig...ég veit ekki...en allavega átti ég mjög erfitt með að segja nei. En núna er ég að læra það...er búin að vera að læra það svona seinustu tvö ár og er alltaf að bæta við nýjum og nýjum levelum í það. Stundum getur það samt verið hrottalega erfitt! Ég er nefnilega oftast að segja nei við hlutum sem hljóma skemmtilegir og spennandi en einhvern vegin er það nú svo (og mjög skrítið) að ef maður segir já við öllu sem manni finnst skemmtilegt þá endar það bara í flækju...þannig maður má ekki bara gera það sem er skemmtilegt...er það þetta sem kallast að verða fullorðinn? Að hætta að gera BARA það sem er skemmtilegt...Er það að fullorðnast að gera líka leiðinlegu hlutina? Ætti það þá ekki að þýða að það sé leiðinlegt að fullorðnast?

Held að maður þurfi bara að gera upp við sig hvort manni finnst betra og skemmtilegra; að gera bara það sem maður vill og finnst skemmtilegt eða að gera líka það sem er leiðinlegt og erfitt og hafa lífið aðeins einfaldara.

Og ég veit alveg hvort ég vel...þó svo maður renni stundum aðeins í hina áttina...enn sem komið er ;o)

Og ég er auðvitað að gera þetta soldið svart og hvítt hérna ;o)

Held ég láti staðar numið hér og fari að hitta vinkonu mína hana Meredith Grey sem virðist vera á svipuðum stað í lífinu og ég ;o)

Hafið það gott masstíurnar mínar og verið góð við alla (nema þá sem eru vondir við ykkur)!

fimmtudagur, 5. júlí 2007

WHAT THE FUCK!

Ok, bara eitt í viðbót...

..Spice girls ætla að velja af handahófi þá sem fá miða á tónleikana þeirra...svona svo þetta sé sanngjarnt!

Hvað í andskotanum! Mér finnst það bara ekkert sanngjarnt! Já ég vil fara á þessa tónleika! Ég elskaði þær og skammast mín ekkert fyrir að hafa gert það! Og mig langar svo endalaust mikið að fara á tónleika með þeim því aldrei náði ég því hérna í den!

Núna langar mig kannski bara ekkert lengur!

Sanngirnilegt hvað?!?!

Óðurinn til gleðinnar

Heh bloggerinn búinn að vera opinn hjá mér í svona hálftíma því ég ætlaði að fara að blogga og narta í smá hrökkbrauð á meðan eeeeen ég var svo svöng að ég bara gúffaði þeim í andlitið á mér!

Er í betra skapi í dag enda búin að vera að vinna á fullu!

Ég bara kann ekki að eiga svona mikin frítíma!

Þetta er hræðilegt! T.d. í gær gerði ég ekkert af viti. Hékk með múttu allan daginn og svo fór ég og hitti Völu vinkonu! Og svo horfði ég á tvo þætti af Grey's Anatomy þegar ég átti að vera löngu farin að sofa!

Því í morgun þurfti ég að mæta rétt fyrir 8:00 í vinnuna og það er mér afskaplega erfitt að vakna á milli 7 og 10 á morgnana...Næstum ógerlegt...en fyrir og eftir þann tíma er það kökubiti!

Svo er bara meiri hluti fjölskyldunnar á landinu og það í borginni þessa helgina! Enda ALLT að gerast þessa helgi! Landsmót og leyndó! Segi ykkur frá því eftir helgi ;o)

Shit mér leiðist!

Ætla að reyna að ná í pabba, Heiðu og yngstu bræður mína tvo og athuga hvort þau vilji ekki fá mig í smátíma :o)

Hasta la vista!

miðvikudagur, 4. júlí 2007

Bad temper!

Ég er í vondu skapi þessa dagana. Þá er ég ekkert voðalega fúl svona almennt en það þarf lítið til að ég verði alveg bandbrjáluð. Ég er mjög skapmikil en hef lært að hafa ágæta stjórn á því. En þessa dagana er ég mjög tæp.

Ég er sár og fúl út í mig, vini mína, veðrið, stöðumælaverði, hagkerfi landsins, hveiti, útlönd, úti-á-landi, sauma, IKEA og svona mætti lengi telja.

En það sem gerði mig glaða í dag var að hitta mömmu í góðu tómi, nýtt pils og ermar frá KVK, að hitta Völu núna á eftir (you better!), knús frá Fanney systur, að Kolli og Þóra koma á morgun...

...og núna er Vala komin so...Túrílú!

sunnudagur, 1. júlí 2007

Svarfaðardalurinn

Vá hvað ég hef ekki verið í stuði til að blogga lengi. Ætlaði alltaf að setja færslu um skólann hingað inn bara rétt eftir að ég var komin, svona á meðan þetta væri allt ferskt í hausnum, en gerði ekki. Er samt að pæla í að skrifa um það sem situr enn eftir.

Skólinn var æðislegur í ár, miklu skemmtilegri en í fyrra. Það var svo skemmtileg stemming í gangi. Ég fór á námskeið til Stephen Harper, sem er hreinræktaður snillingur með meiru, og var það mjög skemmtilegt en líka pínu erfitt. Húmorinn var staðsettur fyrir neðan belti og maður hló eiginlega allan daginn. Mér hefur alltaf fundist kokteilsósa lítið spes en allt í einu fékk ég ekki nóg af henni ;o) Við fengum að lemja vini okkar, elska vini okkar, misnota vini okkar, hlæja að vinum okkar og finna til með vinum okkar. Við vorum líka oft með grímur og það var alveg endalaust gaman að vinna með þær!

Og það var farið í blak, gufan var brúkuð á hverju kveldi enda ekkert betra en að sofna eftir góða gufu með innbyggðu nuddi í ;o) Það var kvöldvaka og á henni komst ég að því að ég var víst athyglissjúkasta manneskjan á svæðinu ;o) Víðir var næst athyglissjúkastur. Athyglissýkin lýsti sér að að við stelpurnar sem vorum saman í herbergi (ég, Rósa, Fanney og Una) sungum allar saman, ég söng Svarfaðardalinn með Hrefnu og Árna til að gefa réttu stemminguna í söguna hennar Siggu Birnu, við Árni sungum saman Come what may úr Moulin Rouge og létum taka okkur af lífi og að lokum tókum við Víðir verðbréfadansinn úr Bingói sem tókst líka svona vel :o) Hápunktur kvöldsins var atriðið hjá Gunna og Snorra úr sýningunni Dauði og jarðarber!

Við fórum líka í heimsókn til Berngt (eða hvernig maður skrifar það, ætla ekki einu sinni að reyna við seinna nafnið) brúðusmiðs og skoðuðum verkstæðið hans og fengum að kynnast nokkrum brúðum og sjá Ástarsögu og hlaupigaurinn úr Umbreytingu.

Nú busunin var á sínum stað. Ég var víst enn busi þar sem ég missti af herlegheitunum í fyrra. Þetta var nokkuð skemmtilegt hjá þeim og lögðu böðlarnir mikið í þetta. Una og Rósa voru svo mikil yndi í að vera ógeðslegar, eru bara allt of sætar til að þeim takist það. Víðir var scary og hélt ég að hann myndi kannski bara missa það í alvöru. Fyndnast var samt þegar við vorum sett inn í gufuna, ég vissi nefnilega alveg hvað var að fara að gerast ;o)

Shit ég var næstum að gleyma Bandaleikunum 2007! Þetta er skemmtilegasta keppni sem ég veit um :o) Ég var í hópnum Dyspraxic sem er orðið yfir þá sem hafa ekkert fjarlægðarskyn. Okkur fannst þetta góð hugmynd þangað til við fórum að reyna að borða og drekka. Vorum örugglega mest edrú lið keppninnar ;o) Og svengsta! En sem betur fer var bæði Hjálparsveitarlið og Ofurhetjulið! Og fjórða liðið var Ladies and gentlemen. Allt kvöldið vorum við síðan að labba á, detta, missa hluti, vera langt í burtu, vera alltof nálægt, etc. Fengum líka að hengja þvottaklemmur á allskonar líkamshár kennarans okkar nokkurra og kippa þeim svo í burtu, teikna á borð, syngja lag um það að vera dyspraxískur, veiða skordýr, halda ræðu með engum S-um og kasta pappaflugvél, en okkar flugvél flaug lengst vegna þess að við komum ekki vængjunum á hana ;o) Þegar liðið okkar var svo orðið vel blátt og blóðugt fengum við að vita að VIÐ UNNUM! :oD

Lokakvöldið var mjög skemmtilegt. Við komum Stephen á óvart með því að búa til Stephen-grímur á okkur öll og gáfum honum áfengi og geisladisk og bók sem innhéldu íslenska menningu. Maturinn var góður og svo dansaði maður frá sér allt vit. Svo var stiginn faðmlagadans í rúman klukkutíma þar sem maður var einhversstaðar milli svefns og vöku. Svo fór maður að sofa :o)

Svo útskrifuðumst við öll og kvöddumst.

Eins gott að ég skrifaði þetta ekki fyrr! Hvað ætli það hefði verið langt!