miðvikudagur, 30. janúar 2008

Good day

Dagurinn byrjaði ekki vel. Svaf yfir mig!

En svo rættist bara úr honum með hverri mínútunni!

Fín æfing, fínt hangs í nemendaherberginu og svo fékk kauppúkinn í mér ærlega útrás þar sem ég eyddi restinni af deginum í að rölta laugaveginn og nágrenni í leit að allskonar búnigakyns dóti! Fór inn í allar uppáhaldsbúðirnar og allt!

Fann reyndar pels sem mig langar í, en ég er mjög pikkí á pelsa og sá seinast pels sem mig langaði í í London febrúar 2006. Þetta gerist því ekki á hverjum degi. Bögg!

Það er drullukalt í dag. Kannski þess vegna sem mig langaði allt í einu í pels.

Hitti Elfu á miðjum Laugaveginum og kláraði hún rúntinn með mér sem var vel þegið því ég var orðin ansi frústreruð þegar ég hitti hana.

Og eins og svo oft áður þá var mest að finna í Hjálpræðishernum! Meira að segja dökkgræn garðyrkjusvunta!

Og næst er það matur hjá Kolla og Þóru og svo Hraun á Organ :o)

þriðjudagur, 29. janúar 2008

Þreytudagur

Ég er úrvinda í dag!

Las svo eina af stjörnuspánnum mínum (já ég les alltaf nokkrar og vel svo síðan þá sem mér finnst best ;oÞ) og hún sagði mér að ég væri þreytt í dag, og að reyndar væri þetta erfiður dagur fyrir alla, en ég þyrfti ekkert að kippa mér upp við það því þetta yrði bara þessi eini dagur og allir þyrftu jú einhvern tíman að hlaða batteríin.

Hresstist merkilega mikið í skapinu við þessa lesningu, en er enn þreytt...og er að pæla í að njóta þess bara smá.

Ætla að heimsækja hinn unaðslega heim kvikmyndanna í DVD-formi!!!

...eða kannski taka öll fötin mín út úr skápnum og fara yfir þau og uppgötva hvað ég á mikið af fötum svo kauppúkinn í mér róist ;o)

mánudagur, 28. janúar 2008

Hamm amm namm?

Sólveig hún á afmæli, hún er 23 ára í dag, til hamingju með afmælið, til hamingju, til hamingju með afmælið, til hamingju!

Og erum við búnar að vera að bardúsa helling saman í dag í tilefni af því :o) Góður dagur í alla staði!

Byrjaði á æfingu á Brúðkaupinu bara í næstu götu, en við erum byrjuð að æfa í Langholtskirkju. Píanóið er staðsett fyrir aftan okkur á sviðinu eins og er gjörsamlega ómögulegt að heyra í því um leið og maður er sjálfur að syngja sem gerði það að verkum að við gátum ómögulega verið jöfn píanóinu heilt lag! Svo er allt að gerast í þessum búningamálum en síminn stoppaði varla á sunnudaginn. Allir að hringja og tékka á hinu og þessu.

Svo er það bara Næsti í 3 tíma í kveld. Aron þarf að skreppa á æfingu þannig ég hoppa bara aðeina þarna inn á meðan. Það er fínt því ég þarf alveg smá aukapening!

Svo verð ég að reyna að gera eitthvað í þessum sumarfiðring sem er í mér. Er alveg að fara yfirum! Næ ekki að njóta vetursins ef ég er með sumar á heilanum!

Bara Hjálmar í græjurnar og sóllampa í plönturnar!

sunnudagur, 27. janúar 2008

Dúbbídúbbídúbbí

Í dag er veðrið í stíl við líðanina...eða allavega eins og það er í Reykjavík.

Ætla samt ekki að standa í einhverju volæðiskjaftæði...það er bara alltof leiðinlegt!

Það var kíkt út á lífið í gær með Rósu...var nokkuð skemmtilegt framan af...svo fauk eitthvað í mig og þá kom ekki annað í mál en að sturta í sig...er merkilega hress samt sem áður!

Lítur svo allt út fyrir að rólegheitatímabil sé að fara að hefjast þar sem maður verður að vera hress hverja helgi fram í miðjan apríl :o)

Á morgun byrjum við að æfa Brúðkaupið í Langholtskirkju. Það verður gaman að fara að æfa það á sýningarstaðnum og laga það að því. Svo verð ég að fara að hreinsa þessa kórtexta hjá mér! Svo held ég að við Barbarinur fáum að vita á morgun hverjar fá að syngja sóló...!

Jájá...

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Fréttaskot

Og sólin heldur áfram að skína í mínum eigins heimi...verst hvað þessi snjór er alltaf að þvælast fyrir á bílnum mínum!

Held að það sé það eina sem ég þoli ekki við veturinn - AÐ SKAFA AF BÍLNUM!

Finnst fínt að hafa kalt, hálku, snjó, éljagang (og uppgötva nú að ég hef aldrei skrifað þetta orð, er það skrifað svona?), snjóstorm og læti, bara ef snjórinn vildi gjöra svo vel og sleppa því að fara á bílinn minn. Nei, reyndar er mér sama þó ég þurfi að sópa af bílnum, þoli bara ekki að SKAFA hann!

Fanney systir að fara í fyrsta inntökuprófið úti um helgina...er að verða stressuð fyrir hennar hönd. Finnst nógu stressandi að vera að fara í mars og bara hérna heima!

Brúðkaupið gengur vel og verður rennt yfir allt heila klabbið á morgun. Ekki er samt enn orðið ljóst hvaða Barbarinur fá lengra sóló eða á hvaða sýningu.

Er svo að fara á fyrstu æfinguna á 39 1/2 vika á eftir hjá Hugleik. Þar er maður víst búin að koma sér í stöðu búningaumsjónarmanns. Það verður gaman :o)

Og er búin að finna búninginn á Barbarinu en á eftir að gera slatta af blómum, setja blátt á jakka Cherubinos, fjólublátt á hatt Marcellinu og örugglega eitthvað fleira. Frumsýningu var líka frestað um viku því hljóðfæraleikararnir gátu ekki spilað með okkur á hinum dagsetningunum, en það er eiginlega bara alveg ágætt. Getum vel nýtt þá viku.

Mig langar á Þorrablót.

mánudagur, 21. janúar 2008

Skúbbidí!

Mig langar í útilegu, berjamó, labba upp á heiði, keyra út í buskann, bjartar nætur, mývarga, lækjanið, fuglasöng, þurrt gras, sóleyjar og fífla, áhyggjuleysi, sól, dögg á grasi, grillaðan mat, gítarglamr...mmmm

Held að næsta sumar verði gott :o)

Ég veit ég er kannski klikkuð að vera farin að hugsa um sumarið núna en það er næst á dagskránni þar sem þessi önn er eiginlega fullbókuð fram í maí!

Svona á lífið að vera :o)

Hver er memm í útilegu í sumar?

laugardagur, 19. janúar 2008

Eyru

Ég hef komist að því að ég myndi líta betur út með engin eyru...

...any tips?

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Rolling Stone

Svona er maður nú töff!


Jejejejejejeje!!!!

;o)

Losun

Urr...mjá...voff!

Og takk fyrir það!

Vildi óskaóskaóska að það væri kominn svona 12. maí og allt væri komið á hreint og allt hefði fengið jákvæðustu niðurstöðu! Og að ég væri búin að vinna í lottói eða eitthvað álíka!

Þetta var góður dagur og allir dagar eru búnir að vera góðir...en svo fyrir svona hálftíma varð ég ill í skapinu! Er að reyna að láta það líða út úr mér núna...svona beint upp úr hausnum...!

Er búin að vera í svo góðu jafnvægi, glöð og hamingjusöm og orkumikil núna seinustu daga og ég bara neita að leyfa því að breytast!

Shit hvað mig er samt farið að langa til að taka þátt í leikriti! Verð samt að láta mér nægja þessar tvær óperur sem ég er í...og að hanna búninga...og að skipuleggja sumarið hjá Sýnum...! Það er reyndar líka voða gaman!

Finn ekki helvítis kórnóturnar mínar!!! Og ég sem ætlaði að byrja að mæta á kóræfingar aftur!! Held að ég neyðist til að hvolfa herberginu mínu í leit að þeim og taka svo vel til á eftir...

Hef annars voða lítið að segja...

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Kryddpíurnar

Þær stóðu fyrir sínu. Mikið show og mjög absúrd lífsreynsla. Maður var komin 10 ár aftur í tíman, gróf upp gelgjuna í sér en var samt stödd á árinu 2008. Þetta kitlaði tárakirtlana aðeins því ég ímyndaði mér að ég væri aftur orðin 13 ára. Þá var þetta minn helsti draumur! Og þarna var ég! Sé sko alls ekki eftir þessu og er eiginlega enn að átta mig á þessu öllu saman! Læt hérna nokkrar myndir fylgja með sem maður náði af þeim stöllum.

Allt ætlaði um koll að keyra þegar þær tóku Wannabe!


Jájá, ein mynd af mér líka ;o) Ég fyrir utan Höllina með auglýsingarnar á bakvið!


Hérna má sjá nýja versjón af Breska-fánakjólnum sem er orðinn klassískur!


Það var skipt um föt á sviðinu og læti!


Við systur að bíða spenntar eftir því að sjóvið byrji!

Það er búið að taka agalegan tíma að koma þessu inn og tölvan mín vill ekki koma öllum myndunum fyrir á netinu...allavega ekki í dag. Þannig ég nenni ekki mikið lengur að vera í tölvunni.

Annað sem er að frétta er:
Ég er að fara að sjá um búninga í Brúðkaupi Fígarós hjá Söngskólanum, en þar syng ég líka hlutverk Barbarinu eins og svo oft hefur komið fram.
Er líka að fara að sjá um búninga í 39 og 1/2 vika hjá Hugleik en gaf ekki kost á mér í leik þar því ég mun bara verða og bissí til þess.
Er að verða búin að læra öll lög sem ég ætla að hafa á 7. stigs lista og það er nýtt því oftast hafa verið svona 2-3 lög á lista hjá mér sem ég bara kann ekki!
Er svo byrjuð að undirbúa lög fyrir nemendatónleika sem verða 5. febrúar.
Er glöð og ánægð og jafnvel farin að finna fyrir hamingjunni minni aftur :o)

Spice up your life!

fimmtudagur, 10. janúar 2008

Þrítugir og þvottur

Doddi vinur minn jók brosprósentur vikunnar um helming þegar hann sagði mér frá því hvað kom fyrir hann í dag.

Doddi er þrítugur, tveggja barna faðir sem býr með sambýliskonu sinni í úthverfi í Reykjavík. Hann hefur góða menntun og góða stöðu í vinnunni sinni. Hann ákveður að sanna fyrir konunni sinni að hann geti þvegið þvott og það sé voða auðvelt. Hann skellir í vél og þurrkara. Þegar þvotturinn er síðan tekinn út kemur í ljós að margt hefur minnkað og annað er orðið bleikt, helmingurinn ný föt konunnar.

Hvernig getur maður verið þrítugur, kominn þetta langt í lífinu en ekki þvegið þvott án þess að gera svona heimskuleg mistök?

Doddi horfðir þú aldrei á Friends? Bendi þér á að tékka á fyrstu seríunni ;o)

þriðjudagur, 8. janúar 2008

Dugnaður og leti

Í dag er ég búin að vera rosalega dugleg og líka frekar löt. Mætti í skólann á réttum tíma klukkan 9:00 í morgun á æfingu á Finale í 4. þætti í Brúðkaupinu. Æfði mig svo ein á þeim parti þannig ég held að hann ætti að vera komin á hreint núna. Heima fann ég síðan allskonar dót sem tengist þessum 4 lögum sem ég á eftir að læra alminnilega af þessum 20 sem ég þarf að hafa fyrir 7. stigs prófið, þannig ég er komin langt með þau, auk þess sem ég tók tvö af þeim og fór vel yfir laglínuna.

Þá var klukkan orðin 4 og ég ákvað að leyfa mér að hvíla mig smá og tók smá House syrpu, fyrst maður er komin með 3. seríu í hendurnar ;o) Náði að halda mér vakandi í gegnum fyrstu tvo þættina en steinsofnaði yfir þeim þriðja! Svaf í tvo tíma sem er ekki nógu gott því ég er að reyna að berjast á móti þessum svefnsjúkdómi sem allt í einu herjaði á okkur systur. Sé til hvernig fer með að sofna í kveld!

Svo er ég búin að kynna mér slatta vel kórpartana í Brúðkaupinu en á morgun er einmitt kóræfing í því dæmi.

Þannig ég er búin að vera aðeins meira dugleg en löt ;o)

Svo líður mér líka skringlega...Nenni innilega ekki að gera neitt en geri það bara samt og meira til! Mjög skrítið! Er líka að finna fyrir því aftur, frá því snemma í haust, að ég sé að fá eitthvað út úr því að vera dugleg...ekki jafn mikið og áður fyrr, en samt eitthvað.

Er til eitthvað sem heitir Workaholic Anonymous? Það er nefnilega alveg jafn alverlegt að vera vinnufíkill eins og hvers konar annar fíkill. Held samt að það sé ekki litið þannig á það. Eða hvað?

Langar rosalega mikið þessa dagana að verða aftur vinnualki! It's my weakness! Og það er nokkuð góð leið að fara til að þurfa ekki að takast á við lífið því flestum finnst maður bara rosa duglegur og allir voða stoltir af manni...annað en ef maður væri alkóhólisti, dópisti, kynlífsfíkill, matarfíkill eða eitthvað þannig...en ég ætla ekki að leyfa mér það...nema bara upp að vissu marki...eða hvað?

Er farin að leita að Pollýönnu!

sunnudagur, 6. janúar 2008

Frí

Jæja, þá er fríið loksins að klárast.

Ég hef komist að því að ég er ekkert rosa hrifin af fríum. Það virðist ekkert ganga upp í þeim. Eða kannski er það bara ég :o)

Þetta var samt fínasta jólafrí og það gerðist svo margt að mér líður eins og þetta hafi verið miklu lengur, jafnvel hálft ár.

Og núna byrjar aftur hin daglega rútína og fríið verður eftir í minningunni eins og draumur. Maður hugsar tilbaka og spyr sjálfan sig hvort þetta hafi virkilega verið raunveruleiki.

Og dagleg rútína, jibbí! Elska daglega rútínu jafn mikið og ég hata hana. Hún er nú það sem heldur mér gangandi. Skipulag og skipulag. Elska skipulag og elska að þurfa að beita mig aga til að halda því. En ég hata það líka.

Held það fari bara eftir því hvaða persóna er ríkjandi í mér þá stundina.

Margt og mikið skeð sem mig langar til að segja frá og margt sem ég hef séð, en ég bara nenni því ekki. Þetta er vandamálið við það þegar maður lætur bloggin sín snúast um það sem maður er að hugsa frekar en það sem maður er að gera :o)

Kannski stikla á stóru? Já, ætli það ekki bara:

  • Brúðkaup í gær á stjúpsystur minni. Það var svo fallegt og algerlega fullkomið. Var í fyrsta sinn gellan sem var að fara að grenja því þetta var svo fallegt. Þau eru líka bara eitt fallegasta par, á allan hátt, sem ég hef þekkt.
  • Sá Ökutíma á Ak. og var bara nokkuð sátt. Skil samt ekki alveg hræðsluna við að sýna atriðin sem hefðu átt að sjokka soldið, held það hefði hjálpað til að fá sjokkin. En fín sýning og get alveg mælt með henni.
  • Sá Jólasveininn líka á Ak. Stórkostlegur karakter en hefði kannski mátt vera þéttari. Góð fjölskylduskemmtun þar á ferð.
  • Náði ekki að sjá Íslandsklukkuna aftur þar sem ég eyddi þremur dögum á Ak. milli jóla og nýárs.
  • Átti fínasta Gamlárskveld þar sem ég, mamma og Gulli snæddum nautalundir á náttfötunum. Kíkti svo í þrjú mjög ólík partý og hitti ólíklegasta fólk, t.d. besta vin minn frá því ég var 3-6 ára eða svo.
  • Brainstormaði með Helga Rafni
  • Eignaðist nýja vini
Held að það hafi nú ekki verið fleira :o)

Ætla núna að halda áfram að skipuleggja mig og lesa handrit og svona.

Túrílú!

föstudagur, 4. janúar 2008

Sambandsfælni

Það eru bara næstum allir haldnir sambandsfælni!

Afsakanir, afsakanir...

Hvernig væri þá að fara að vinna eitthvað í því?

Hvað er það versta sem gæti komið fyrir? Hamingjan?