laugardagur, 8. september 2007

Veturinn

Undanfarið hefur fólk mikið verið að spyrja mig hvernig veturinn leggist í mig. Satt best að segja leggst hann ekki vel í mig því mér finnst hann fullur af skyldum en ekki skemmtun. Þegar ég segi fólki þetta verður það alveg steinhissa og spyr hvernig það geti verið? Og þá fór ég að hugsa hvernig stæði á þessu? Ég er í draumanáminu mínu og gengur vel, ég er að syngja með æðislegum kór og það eru mörg skemmtileg verkefni á dagskrá þar og svo er ég í tveimur varastjórnum. Það eina sem breytist frá seinasta vetri er að ég ætla ekki að taka þátt í stóru leiklistarverkefni og verð ekki í nemendafélgasstjórn í Söngskólanum því í vetur ætla ég að einbeita mér að söngnum. Enda sagði Signý við mig í seinasta tíma: Jæja Jenný, núna ertu búin að sanna þig í félagsmálunum, núna er komið að söngnum."

Málið er bara að söngurinn er mér hjartans mál og eitthvað sem ég vil leggja fyrir mig, ekki bara áhugamál eins og stjórnunarstörfin, og því er ég svo dauðhrædd við hann. Frekar klikkað!

Seinasta vetur upplifði ég alltaf fáránlegan sviðsskrekk í hvert sinn sem ég átti að syngja fyrir fólk jafnvel þó ég sé orðin þokkalega sviðsvön. Ég dæmdi sjálfa mig líka alltaf hart og var aldrei ánægð með neitt sem ég gerði. Því veldur söngurinn mér núna kvöl frekar en gleði og í þau fáu skipti sem ég hef leyft mér að syngja í skólanum ánægjunnar vegna þá fær maður hrúgu af gagnrýni yfir sig fyrir að hafa ekki hugsað nógu vel um stuðninginn, raddbeitinguna, dýnamíkina, línuna, o.s.frv.

Ég er ekki að segja að ég þurfi að hugsa endalaust um þetta allt þegar ég syng því mikið af þessu er komið að einhverju leiti inn í systemið en maður getur alltaf gert betur. Og ég veit líka að það er starf kennarans að benda manni á það sem fór miður.

Þegar söng á nemendatónleikum annan veturinn sem ég var í skólanum tókst mér algerlega að gleyma mér í söngnum. Það var magnað og Signý og Lára voru mjög ánægðar með það og sögðu mér það. Það er akkúrat það sem ég vil upplifa. Náði þessu líka á einni sýningu á Galdraksyttunni og þá fann ég líka hversu vel líkaminn var að vinna og ég svitnaði meira en ég hef gert nokkru sinni á ævinni! Þetta er líka eitt mesta kikk sem ég hef fengið...Úfff! Besta tilfinning í heimi!

Þannig nú hefst leitin að gleðinni í söngnum. Og merkilegt nokk þá vekur það upp tilhlökkun fyrir vetrinum.

0 ummæli: