laugardagur, 7. apríl 2007

Skin og skúrir

Gærdagurinn var í senn skemmtilegur og ömurlegur. Hann hófst á því að ég vaknaði og átti erfitt með að komast úr rúminu vegna þess að ég hafði tognað í kviðnum á leikæfingu daginn áður. Ég ákvað að vera dugleg og taka til í herberginu mínu, sem var eiginlega bara orðið ein stór hrúga af fötum sökum annríkis. Í miðjum klíðum gerðist eitthvað og ég fékk þetta svakalega tak í bakið og festist. Náði þó að losa mig en síðan þá er þetta tak búið að vera þarna og varla möguleiki fyrir mig að gera neitt nema að vera bein í baki nema ég sé tilbúin í ágætis sársauka.

Þannig ég lagðist upp í rúm og fór að hlaða inn tónlist á tölvuna mína af diskum sem ég fékk lánaða hjá mömmu. Þegar líða tók á kvöldið var ég orðin soldið þreytt á að vera ein með sjálfri mér og þar sem ég sat og var að velta því fyrir mér hvað hægt væri að gera í því msn-aði Pétur mig og bauð mér að kíkja yfir til hans þar sem hann og félagar hans sátu yfir bjór. Ég dreif mig yfir. Þar var setið fram á nótt og þá var ákveðið að drífa sig í bæinn.

Fórum og hittum Höllu, Kalla og kærustu Kalla/vinkonu Höllu á Kúltúra og fljótt bættust við Oddur og Óli vinur hans. Eftir einn drykk vildu Kalla og kærastan hans fara á Sólon og við Halla töltum með en ég var samt ekki alveg að fíla þetta því ég fer helst ekki á Sólon og þegar ég sá að það var svona hálftíma röð þá ákvað ég beila.

Heyrði í Pétri og þá voru þeir í röðinn hjá Ölstofunni. Mér leist betur á það og hitti þá þar. Sátum þar í góða stund í spjalli og tróðum okkur svo inn á Vegamót þar sem var dansað eins og vitleysingar. Þar ætlaði ég líka að kaupa mér drykk en neinei það var engin heimild á kortinu. Og þegar ég hætti að dansa fann ég að helvítis takið í bakinu var farið að sækja í sig veðrið. Ég og Pétur töltum þá heim á leið og ég sendi eitt sms úr símanum mínum, stakk honum í vasann en fór síðan að spá í hvað klukkan væri. Þannig ég stakk hendinni ofan í vasann til að ná í símann en nei þar var enginn sími! Pétur hringdi strax í hann og þá var búið að slökkva á honum. Við erum að tala um svona 2 mínútur sem liðu á milli vasapotana! Pétur gaf mér því pítsu og hjálpaði mér að finna út úr því hvernig ég ætti að ná að vakna eftir 5 tíma til að mæta á leikæfingu, því ég á engann annann vekjara en símann minn!

Þannig ég sendi Erlu Dóru sms af netinu og bað hana um að koma til mín klukkan hálf tólf og banka hjá mér svo ég myndi örugglega vakna. Hún gerði það en ég reyndar svaf illa í alla nótt og var alltaf að kíkja á klukkuna á tölvunni minni til að passa að ég væri ekki að sofa yfir mig. Held að þetta fái viðurkenninguna Ömurlegast sólarhringur seinustu ára! En ég skemmti mér samt mjög vel um kveldið þannig þetta voru engar hamfarir.

Svo núna ligg ég upp í rúmi þar sem ég er búin að liggja frá því um sjöleytið, á hitapoka sem Erla Dóra yndi kom með til mín (og gaf mér líka nammi og lánaði mér dvd). Hún er alger gullmoli sú stúlka. Hitapokinn er að vinna á takinu, hægt og bítandi, og á meðan ligg ég í dvdinu enda er ég búin að stunda það afskaplega lítið í vetur að horfa á myndir sem er eiginlega frekar undarlegt þar sem ég elska bíómyndir!

Ætti að vera að læra...en nenni því ekki þegar ég er svona farlama. Ætti kannski að vera að syngja líka en ofan á allt er ég á hraðri leið að fá hálsbólgu. Ætti að vera að sauma til að ná að selja eitthvað og fá pening, en þá komum við aftur að því að ég er ónýt.

Held að líkami minn sé bara að verða að drasli!

Ætla að halda áfram að horfa á kvikmyndir og borða nammi og jafnvel hita mér te með engifer út í.

Ef einhver vill koma og vorkenna mér er það leyfilegt. Bara koma og banka upp á, þýðir lítið að hringja í mig ;o)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er aldeilis óheppnin hjá þér!
Láttu þér batna :)

Gleðilega páska og tak for sidst:)

kv, Elfa Dröfn

jón gunnar sagði...

hæhæ Jenný!

Ertu að fara til London. Ég er á landinu núna er fer aftur til London 13.apríl. skrifaðu mér endilega mail á director@director.is. Kvedðja
Jón GUnnar