þriðjudagur, 29. maí 2007

Og lífið allt var franskur koss!

Jæjah!

Alltof langt síðan það var sett inn ný færsla á þessa síðu!

En það hefur sínar ástæður, eins og flest annað. Ég er búin að vera að vinna á fullu. Afraksturinn mun koma með Mogganum á fimmtudaginn, held ég alveg örugglega, og kallast sérblað um Vestfirði.

Kíkti líka aðeins norður hálfa helgina. Þar var verið að útskrifa Fanney og skíra Þórhall. Mjög góð helgi og gott að komast aðeins í faðm fjölskyldunnar. Svo flutti Fanney suður á laugardaginn og fór til Kýpur á sunnudaginn. Þar verður hún í tvær vikur og kemur aftur á meðan ég er í skólanum.

Já jibbí! Bara rúm vika í Skólann! Hlakka endalaust mikið til! Er líka kvíðin, er svo hrædd við það óþekkta. En samt aftrar það ekkert af mér að henda mér út í djúpu laugina! það er líka hálft gamanið.

Í kvöld klukkan 21:00 er svo tónlistardagskrá Hugleiks í Þjóðleikhúskjallaranum og hvet ég alla eindregið til að mæta og hlýða á misgáfulega texta og skemmtilega tónlist. Aldrei að vita nema ykkar einlæg opni á sér þverrifuna og góli eitthvað. Ef þið komist ekki í kvöld þá er bara að mæta á föstudagskveldið en þá verður gamanið endurtekið, en þá er það klukkan 22:30.

Núna er ég svo eiginlega komin í smá frí, bara úthringidjobbið á kveldin 3x í viku. Held það verði þannig þangað til eftir skóla, nema ég verð náttúrulega ekki að hringja út þar.

Við söngfuglarnir hittumst á sunnudagskveldið og grilluðum saman. Það var mjög skemmtilegt enda kann þetta lið að skemmta sér þegar það loksins leyfir sér það ;o) Vona að þetta verði gert oftar í sumar.

Fékk líka einkunirnar mínar úr Söngskólanum og verð að segja að ég er bara nokkuð sátt. Dómarinn var að gefa mjög lágar einkunnir en ég fékk 85 sem er venjulega lægsta einkunin sem maður sættir sig við en núna er þetta bara nokkuð góð einkunn. Ég bjóst meira að segja við lægri einkunn. Svo eru kommentin hans flest góð, bara eitt og eitt smáatriði sem hann setur út á, þannig það er ekki alveg í samræmi við stigagjöfina hans. En svona er fólk misjafnt. Kannski gefur hann bara pro söngvurum hæstu einkunn?!?!

Annars held ég að það hafi ekki fleira markvert gerst síðan síðast, en ég gæti alveg verið að ljúga að ykkur.

Þannig að ég ætla að fara að taka til hérna heima og kannski fara með kassa í geymslu til mömmu.

Eigið góðan og sólríkan dag!

0 ummæli: