þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Sá á kvölina sem á völina!

Og ég sem hélt að ég væri búin að skera þannig niður að það yrði ekki mikið að gera hjá mér í vetur! Ákvað að taka ekki þátt í stórri uppsetningu hjá Hugleik, held ég hafi alltaf tekið þátt í einni á hverjum vetri núna eftir að ég flutti suður. Og ég ætla fyllilega að standa við það! Vandamálið er bara að í staðinn mun ég taka þátt í þremur óperuuppsetningum!!

Held það kallist ekki að skera niður!

Reyndar er ein uppsetning búin og í dag byrjaði undirbúningur fyrir næstu sem verður frumsýnd í lok janúar á næsta ári. Það er nemendaóperan í skólanum sem er að setja upp Brúðkaup Fígarós með 40 nemendum! Og hvernig fá 40 nemendur eitthvað að gera í einni uppsetningu? Jú, hlutverkin eru bara bútuð niður og fær hver nemandi sinn bút að læra. Ég er ein af fimm Barbarinum. Reyndar er eitthvað vesen með það þar sem karakterinn syngur bara eina litla kavatínu og bíðum við Barbarinurnar spenntar eftir að sjá hvernig á að leysa þetta.

Seinasta uppsetning vetrarins er hjá Óperustúdíói Íslensku Óperunnar, æfingar hefjast í febrúar. Þar verður Cosi fan tutte sett upp og er maður nú bara í kórnum þar sem hefur nú ekkert agalega mikið að gera en þó eitthvað. Bestu fréttir dagsins voru án efa að fá að vita að það væri hún Ágústa Skúla sem ætli sér að leikstýra herlegheitunum! Er farin að hlakka ógurlega til að sjá hvað kemur út úr þessu. Frumsýning áætluð um miðjan apríl.

Það skemmtilega er að í mars/apríl eiga einmitt 7. stigs tónleikarnir mínir að vera. Þar syngur maður um 10 lög minnir mig og allt á náttúrulega að vera perfect!

Og í mars/apríl er ég búin að ákveða að gera líka svo lítið annað, eins og fram kom í fyrra bloggi. Það þarfnast undirbúnings og mun því taka smá tíma frá mér frá og með deginum í gær.

Og út af þessu öllu saman verð ég að eyða sem mestum tíma í lærdóm og undirbúning núna fyrir áramótin.

Það þýðir að eitthvað þarf að fjúka...því miður...!

Það er erfitt að velja og hafna!

0 ummæli: