sunnudagur, 18. nóvember 2007

Íslandsklukkan

Ég kíkti norður (heim) um helgina til að hitta fjölskyldu og vini og til að sjá Íslandsklukkuna sem Leikfélag Húsavíkur var að frumsýna.

Ég er nú frekar mikið tengd þessari sýningu þar sem það var hann karl faðir minn sem leikstýrði, en ég ætla samt að segja hér hvað mér fannst og held að ég sé nú bara nokkuð hreinskilin.

Leikarar- Leikararnir stóðu sig með mikilli prýði og ekkert í leiknum sem fór fyrir hjartað á manni. Misvant fólk á ferð eins og gengur og gerist en allir geta verið ánægðir með frammistöðu sína. Þeir karakterar sem sitja mest eftir í mér eru Snæfríður eldri, Jón Hreggviðsson og Jón Marteinsson, en einnig voru góðir karakterar Domkirkjupresturinn, Júnkærinn, Arnas Arnæus, Snæfríður yngri og Jón Grinvicensis. En eins og ég segi þá var hvergi brotalöm í leiknum og mega því allir vera sáttir með sig.

Tónlist - Tónlistin skipar stórt hlutverk í þessari sýningu hjá Leikfélagi Húsavíkur og lifir tónlistin undir verkinu næstum allan tíman. Tónlistin er frumsamin af Guðna Bragasyni og þjónar verkinu afskaplega vel. Skapar alltaf sterkt andrúmsloft. Hún er einnig þannig að maður tekur endilega ekkert mikið eftir henni þegar hún lifir undir textanum, truflar því ekki, heldur hjálpar án efa mikið. Það er mikill og þungur texti í þessu verki sem oft getur þreytt bæði áhorfandann og leikarann, en það gerir það aldrei í þessu verki. Það var einungis á þremur stöðum þar sem mér fannst að það mætti breyta um stef og oftast breyttist það mjög fljótt eftir að þessi hugsun flaug í gegnum huga minn. Söngurinn hjá Sigga Ill er líka undurfagur.

Lýsing - Lýsingin fannst mér æðisleg. Í forleiknum er hún frekar dimm, græn og dulúðleg og er örugglega mesti faktorinn í að hann virkar. Þar er verið að kalla söguna fram og sjáum við bita og bita úr sögunni koma fram á sjónarsviðið. Lýsingin þar var þannig að mér fannst ég algerlega vera komin í annan heim, missti eiginlega allt raunveruleikaskyn. Það var býsna magnað. Þar sem leikmyndin er einföld er margt skapað með ljósum og tekst það fullkomlega. Skálholt, Þingvellir og Kaupmannahöfn eru líka sýnd með sniðugum lausnum. Man líka að mér fannst lýsingin góð á grímudansleiknum, þegar Snæfríður og Arneus láta sig dreyma um betra Ísland og þegar Snæfríður snýr sér hægt í hring rétt áður en hún talar við Dómkirkjuprestinn.

Búningar og hár - Þjóna sýningunni vel, enda útlitið tekið frá þeim tíma er sagan gerist á. Hrós fá allir sem fórnuðu sér í miklar hárbreytingar og er ótrúlegt hvað fólk hefur samþykkt að láta gera við hausinn á sér!

Leikmyndin - Einföld og stílhrein. Sviðið er grænleitt og er leikmyndin pallar í sama lit sem er raðað mismunandi upp eftir því á hvaða stað við erum. Skiptingar tóku kannski stundum langan tíma en alveg greinilegt að það hefði nú ekki verið hægt að stytta það mikið meira. Svo auðvitað meyjarhaftið sívinsæla ;o) En heildin er góð lausn á litlu sviði.

Heildarsýn - Falleg og yfirveguð sýning sem hefur draumkennda áferð. Er næstum því ekki viss hvort mig dreymdi þetta eða hvort þetta fór fram í alvöru.

Ég kann nú ekki að skrifa um leikhús en ég held að ég sé búin að koma því til skila sem mig langaði að segja um þessa sýningu. Þetta er ekki sýning þar sem maður hoppar úr sætinu strax og henni lýkur og júbbílerar yfir því hvað hún var mögnuð, heldur situr hún áfram í manni og gerjast vel. Aðeins ein önnur sýning hefur gert það en það var Memento Mori. Þessar tvær sýningar eru þó ólíkar í leikstíl. Ég tók ekki eftir því hvað sýningin væri löng og var í raun hissa á að það væri komið hlé strax, en þá var rúmur klukkutími frá því að hún hófst.

Ég mæli bara eindregið með að fólk fari og kynni sér sjálft það sem er í gangi á Húsavík og held ég að ég geti með sanni sagt að það á ekki eftir að verða fyrir vonbrigðum!

Takk fyrir mig og til hamingju með flotta sýningu!

Þetta er nú líkast til orðið ógnarlangt blogg hjá mér. Ferðin var góð í alla staði og hélt ég mér mest með fjölskyldunni minni og skemmti mér vel með henni. Hitti líka Gunnhildi sem var voða gott enda hef ég ekki séð hana í allavega 2 ár! Þegar ég mætti svo á flugvöllinn voru Hanna og Íshildur þar og sátum við í sömu röð þannig ég náði líka góðu spjalli við Hönnu og komst að því að við erum með lík plön á næstunni þannig vonandi á maður eftir að sjá meira af henni, já og þeim mægðum. Skammast mín eiginlega fyrir að segja það en ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég sé Íshildi :o/ Lélega Jenný!

Og núna er ég heima í Reykjavíkinni að njóta þess að gera ekki neitt þó að herbergið sé í rúst, ég eigi eftir að pakka upp og ætti kannski að vera að læra ;o)

0 ummæli: