miðvikudagur, 5. desember 2007

Enn ein andvökunóttin

Þá er maður enn og aftur andvaka. Hefur reyndar ekki gerst frá því í sumar.

Requiem var æði. Byrjaði að skjálfa þegar kaflinn á undan Lacrimosa var að klárast því ég vissi alveg hvað var að koma. Kiknaði svo í hnjánum. Riðaði til lengi eftir á. Heppni hvað ég þurfti að keyra stutt.

Er búin að vera að njósna um allskonar fólk á netinu. Gamlir skólafélagar, fólk sem maður kannast við, fólk sem maður þekkir ekki baun. Gaman hvað fólk er atorkusamt og hugmyndaríkt.

Er orðin soldið stressuð yfir því að vera andvaka því ég þarf að vakna fyrir 8:00 í fyrramálið og mæta á Brúðkaup-Fígarós-æfingu...reyndar bara kóræfingu. Ætla líka ekki að syngja. Þarf að spara röddina fyrir kveldið. Var ráðlagt í dag að vera ekki að syngja á meðan ég væri svona slæm í hálsinum. Það verður athugað betur í söngtíma á morgun.

Er líka stressuð yfir því að vera ekki sofnuð því þá næ ég litlum svefni og þá bætist þreyta ofan á allt raddvesenið. Afhverju gat ég ekki bara ákveðið að verða eðlisfræðingur eða geimfari eða ávaxtabóndi? Þá hefði nú litlu skipt þótt ég gæti ekki sungið.

Annars finnst mér nú eiginlega bara mjög kósí að vera vakandi á næturnar. Svo mikil kyrrð yfir öllu, ekkert áreiti. Loftið eins og það sé aðeins hreinna, svalt og frískandi.

Akkúrat núna væri ég til í að það væri nótt snemma í ágúst. Þegar það verður ekki alveg dimmt, þegar himininn verður bara svona dimmblár. Það er komið smá haust í loftið og því byrjað að vera pínu svalara á næturnar. Döggin liggur létt yfir öllu og það er stjörnubjart. Að ég væri uppi í sveit og væri liggjandi uppi í heiði, heyrði ekki í neinu nema náttúrunni og fyndi fyrir rakanum á jörðinni við andlitið. Fullkomin hamingja!

Það er risa, uppblásinn jólasveinn með ljósi inni í á svölunum á neðri hæðinni og það eru rosa læti í honum. Hann malar allan sólarhringinn. Truflar soldið næturfriðinn sem ég var að sækjast eftir þegar ég opnaði gluggan áðan. Hann er samt voða sætur því það er eitthvað svo einlæglega barnslegt að setja risavaxinn jólasvein á litlu svalirnar sínar.

Held ég ætti að fara að sofa. Umferðin er líka farin að aukast. Fólk á leiðinni í vinnuna sína í bakaríinu, líkamsræktarstöðinni og hvar sem maður byrjar að vinna svona snemma. Svo eru kannski sumir á leiðinni á flugvöllinn í KEF að sækja einhvern sem er að koma frá útlöndum, eða til að fara til útlanda sjálfir.

Það er oft merkilega mikil umferð um Reykjavíkurflugvöll upp út miðnætti...upplifði það bæði í Kvisthaganum og í Garðastrætinu.

En nóg af vanilluhungangssullumbulli í bili!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Dúlla mín. Hvaða netfang ertu með? Var að reyna að senda þér póst en fékk í hausinn aftur ...

jennzla sagði...

hehe já ef þú ert að reyna að fara eftir bingólistanum þá er hann alveg úreldur :o) Það er jennzla1@gmail.com