laugardagur, 22. desember 2007

Frekar langt blogg sem er mikill vellingur!

Það er skrítið að vera hérna á Laugum aftur í meira en nokkra daga. Hef bara haft tíma til að kíkja í mesta lagi 5 daga seinustu árin og var búin að gleyma hvað það er ekkert að gera hérna. Núna er líka enn minna að gera hérna því það er ekkert Laugasel/Laugabær og flestir vinir mínir sem bjuggu í nágrenninu eru fyrir sunnan eða í útlöndum...eða bara einhversstaðar annars staðar á landinu.

Hlakkaði til að koma hingað og bara vera að lesa og kannski klára að læra lög og texta fyrir 7. stigið en ég er svo fáranlega eirðarlaus að ég hef ekki upplifað annað eins í háa herrans!

Það er heimskulegt að vera eirðarlaus...Það er heimskulegt að vera vakandi klukkan 20 mín. yfir 5 um nótt...það er heimskulegt að vera eirðarlaus og vakandi kl. 20 mín. yfir 5 um nótt.

Þannig ég ætla að bulla aðeins á blogginu mínu til að stytta mér stundir.

Er búin að liggja uppi í rúmi síðan á miðnætti og skoða flestallar íslensku hljómsveitirnar á myspace sem mig langaði að tékka á. Fann margt gott og annað ekki eins gott. Fannst VilHelm eiginlega bestur. Elska teateríska og karnivalíska tregafulla tónlist. Svo uppgötvaði ég líka Klassart fyrir alvöru. Þau ödduðu mér fyrir löngu síðan en ég hafði ekki tíma til að tékka alminnilega á þeim. En svo urðu þau á vissan hátt á vegi mínum aftur nýlega og ég ákvað að sjá hvernig þetta væri og finnst þau bara mega góð. Eru allavega ekki að gera bara eins og allir aðrir.

Fann það einmitt út á þessum rúnti mínum að sumar nýjar hljómsveitir eru eiginlega bara að apa eftir eldri hljómsveitum. Alveg fínt stöff en það er bara visst mikið af þessu væli sem maður þolir. Já þetta var flest allt í vælugeiranum...samt ekki strákabandavælageiranum...LÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖÖNGU komið nóg af því!

Athugaði líka hljómsveit sem heitir Rökkurró og það er rosa sæt sveit. Finnst gaman að þau syngi á íslensku og það passar merkilegt nokk vel við lögin. Oft passar íslenska ekki við lög (nefni Hara-systurnar sem dæmi) en hún sómir sér vel í þessum lögum.

MSN er erfið leið til að tjá sig...og SMS líka. Ég hrúga alltaf inn brosköllum, upphrópunum og punktum svo fólk nái tóninum í því sem ég er að rita en það kemst ekki alltaf til skila...svo skilur fólk líka þessi merki og kalla á mismunandi vegu. Er að reyna að venja mig á að hringja frekar en að senda SMS, en ég er forfallinn essemmessari...og emmessennari ef út í það er farið. Svo hentugt því maður truflar fólk eiginlega ekkert með því að senda því skilaboð og svo er alltaf hægt að taka sinn tíma í að svara...en það er eini ókosturinn við að tala í síma eða face to face...fólk bara fríkar út ef það koma þagnir!

Sjálfri finnst mér þögn ekkert svo erfið...eiginlega bara notalegt að þegja soldið inn á milli. Hún getur náttúrulega verið erfið á vitlausum augnablikum...en að þegja svona inn á milli umræðuefna er bara fínt. Hitt stressar mig of mikið....hugsa bara "shit þetta umræðuefni er að verða uppurið!! Hvað í fjandanum er hægt að tala um þá???"

Ég þegi líka alltaf ef ég er að kynnast fólki í hóp. Ef einhver talar samt við mig one-on-one þá er þetta ekkert vandamál! En ef ég er innan um hóp af fólki sem ég þekki misvel þá kýs ég að þegja en fylgist þeim mun betur með!

Komst að því í kveld að ég er orðin Starari. Við Fanney vorum að snæða á Búllunni á Ak. og þar er fjölskylda greinilega búin að mæla sér mót. Þegar meirihlutinn af fjölskyldunni kemur inn fara þau beint að manninum sem var einn að bíða eftir þeim og hrúgast öll utan um hann. Það var svo mikill kærleikur fólginn í þessu að ég hélt áfram að fylgjast með þeim. Það var svo gaman. Og þegar Fanney sagði "You're staring!" þá fór ég að hugsa út í þetta og komst að því að ég er farin að gera mikið af því að fylgjast mislaumulega með fólki...Kenni einmanalegum kaffihúsabiðum alfarið um þetta.

Og ég sem hef aldrei þolað hvað fólk starir á annað fólk!

Þessa dagana er ég svefnlaus, eirðarlaus, hamingjusöm og skíthrædd! Ein tilfinning kom fyrst og leiddi af sér aðra tilfinningu sem leiddi svo af sér þá þriðju sem leiddi af sér eina tilfinningu í viðbót...er ekki viss um hver af þeim kom fyrst. Verður maður hamingjusamur af svefnleysi og svo skíthræddur við það sem endar í eirðarleysi? Eða verður maður eirðarlaus af hamingju sem leiðir af sér ótta sem er fylgt fast á eftir með svefnleysi? Stundum er ein tilfinning ráðandi en svo hellast þær stundum allar yfir mig í einu eins og foss. Tilfinningastríð eru stórskemmtileg, maður lærir svo margt :o)

Lék mér við Benna bróður heillengi hjá ömmu í dag. Höfum aldrei leikið okkur svona mikið saman. Fórum út og allt. Það var ótrúlega gaman og helst hefði ég bara viljað skrópa í leikhúsið og halda áfram að leika við hann :o) En ég fór heim að skipta um föt og undirstrika andlitsfallið og þar var Þói sprækur og var allt í einu til í að leika við mig þó að pabbi væri heima, en hann er mikill pabba-og mömmustrákur og vill hvergi annars staðar vera en í fanginu á þeim ef þau eru nálægt. En nei nú var hann til í að leika sér! Þannig það tók aðeins lengri tíma að taka mig til :o) Svo vildi hann bara fara með mér þegar ég var að fara.

Og þess vegna er ég að drepast úr væmni í kveld.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Væmni er skemmtileg, skemmtilegt blogg!

Hafðu það gott um jólin :-)

kv. Halla